Fótbolti

Hólmfríður á skotskónum í naumum sigri | Sjötti sigurinn í röð hjá Rosengard

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Hólmfríður var á skotskónum.
Hólmfríður var á skotskónum. Mynd/Vísir
Hólmfríður Magnúsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir voru báðar í byrjunarliði Avaldsnes í 4-3 sigri á Röa í norsku úrvalsdeildinni í dag en með sigrinum skaust Avaldsnes í bili upp fyrir Lilleström í toppsæti norsku deildarinnar.

Avaldsnes komst 2-0 yfir um miðbik fyrri hálfleiks eftir mörk frá Andrine Tomter og Hólmfríði en Röa tókst óvænt að jafna metin á upphafsmínútum seinni hálfleiks.

Avaldsnes bætti þá við tveimur mörkum, það seinna eftir stoðsendingu frá Hólmfríði en Röa neitaði að gefast upp. Náðu gestirnir að minnka muninn aftur tuttugu mínútum fyrir leikslok en lengra komst Röa ekki.

Með sigrinum skaust Avaldsnes upp fyrir Lilleström í norsku úrvalsdeildinni en Lilleström á þó leik til góða.

Í Svíþjóð heldur fullkomin byrjun Rosengard áfram en Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur í Rosengard unnu í dag sjötta leik sinn í röð 2-1 gegn Göteborg á útivelli.

Rosengard komst 2-0 yfir á upphafsmínútum leiksins en fékk á sig sjaldséð mark korteri fyrir leikslok sem hleypti lífi í leikinn. Var það aðeins þriðja markið sem Rosengard fær á sig í fyrstu sex leikjunum.

Lengra komst Göteborg ekki og komst Rosengard því aftur upp í toppsætið á markatölu framhjá Linkopings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×