Íslenski boltinn

Hólmbert: Atvinnumennskan er erfiðari en fólk heldur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson er kominn heim eftir atvinnumennsku hjá skoska liðinu Celtic og danska liðinu Bröndby og skrifaði i gær undir tveggja og hálfs árs samning við Pepsi-deildarlið KR.

Valtýr Björn Valtýsson ræddi við þennan 22 ára framherja í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

„Ég fór á fund með KR og þeir heilluðu mig mjög mikið. Allt í kringum klúbbinn er mjög fagmannlegt þannig að ég ákvað að taka KR," sagði Hólmbert.

Hólmbert valdi á endanum á milli KR og Breiðabliks en hann fór yfir málin með föður sínum á lokasprettinum.

„Ég hitti Blika fyrir tveimur dögum og leyst líka mjög vel á það sem þeir voru að bjóða. Þetta var bara spurning um hvað ég vildi gera og ég tók KR í þetta skiptið," sagði Hólmbert.

Valtýr Björn spurði Hólmbert um hvað það hafi verið við útlandið sem heillaði hann ekki.

„Það heillaði mig í rauninni allt en þetta er bara erfiðara en fólk heldur. Þetta tók líka á mig andlega því þetta er ekki alltaf dans á rósum. Ég var kominn með mikinn kvíða og vildi bara núllstilla mig með því að koma heim," sagði Hólmbert.

„Ég hefði getað farið í Kópavoginn en KR heillaði mig mjög mikið og því ákvað ég að koma frekar í Vesturbæinn," sagði Hólmbert.

„KR er stórveldi á Íslandi og þeir reyna að vinna alla titla sem eru í boði á hverju einasta ári. Það heillaði mig að koma inn í þannig umhverfi og reyna að hjálpa þeim í því," sagði Hólmbert.

Fyrsti leikur hans með KR gæti verið á móti FH en það er fyrsti leikur KR eftir að Hólmbert verður orðinn löglegur.

„Það ætti að vera mjög spennandi. FH-ingarnir eru með frábært lið og eru á toppnum í deildinni í dag. Það verður góð frumraun fyrir mig," sagði Hólmbert.

„Ég er búinn að skrifa undir tveggja og hálfs árs samning við KR og það er bara það sem ég er að hugsa um í rauninni eins og er. Ef möguleiki á atvinnumennsku opnast þá kíki ég bara á það ef ég er tilbúinn í það. Nú ætla ég bara að vera heima og fara að njóta þess að spila fótbolta aftur," sagði Hólmbert.

Það er hægt að sjá allt viðtalið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×