Fótbolti

Hólmar Örn samdi við sigursælasta lið Noregs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með A-landsliðinu á móti Belgíu í vetur.
Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með A-landsliðinu á móti Belgíu í vetur. Vísir/Getty
Íslenski varnarmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við norska stórliðið Rosenborg en hann spilaði með liðinu þrjá síðustu mánuðina á síðasta ári.

Morgunblaðið sagði fyrst frá þessum samningi Hólmars Arnar Eyjólfssonar við sigursælasta knattspyrnulið Noregs frá upphafi en Hólmar Örn er sonur gamla landsliðsfyrirliðans Eyjólfs Sverrissonar.

Hólmar Örn vann sér sæti í byrjunarliði Rosenborg á síðustu leiktíð en liðið endaði í öðru sæti, ellefu stigum á eftir Noregsmeisturum Molde.

Hólmar Örn Eyjólfsson var áður hjá þýska liðinu Bochum en hann var einnig í herbúðum West Ham og er síðan uppalinn hjá HK í Kópavogi.

Rosenborg hefur 22 sinnum orðið norskur meistari en liðið hefur þó ekki unnið titilinn síðan árið 2010.

Hólmar Örn  er 24 ára gamall og hefur verið aðeins í kringum A-landsliðið síðustu ár. Hann hefur leikið 27 leiki fyrir 21 árs landsliðið og er leikjahæsti leikmaður liðsins frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×