Körfubolti

Höllin bíður | Upphitunarmyndband Þórsara fyrir leikinn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Græni drekinn lætur sig ekki vanta í kvöld.
Græni drekinn lætur sig ekki vanta í kvöld. Vísir/Ernir
Þorlákshafnar Þórsarar eiga möguleika á því að komast í bikarúrslitaleikinn í fyrsta sinn í kvöld þegar liðið tekur á móti Keflavík í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn.

Keflvíkingar hafa unnið Þórsara í báðum leikjum liðanna í Domino´s deildinni og hafa ennfremur komist tíu sinnum í bikarúrslitin. Keflavíkurliðið tapaði hinsvegar síðasta leik sínum á heimavelli á móti nágrönnunum í Njarðvík og því má búast við grimmum Keflvíkingum í kvöld.

Þórsarar hafa einu sinni áður verið í þessari stöðu en þá þurftu þeir að spila á útivelli og töpuðu 93-84 í Grindavík árið 2014.

Sjá einnig:Komast Þórsarar í fyrsta sinn í Höllina?

Þórsarar vonast eftir góðum stuðningi í Icelandic Glacial höllinni í kvöld og hafa nú sett saman í myndband til að auglýsa leikinn og ýta undir stemmninguna fyrir kvöldið.   

Það er nóg að tilþrifaleikmönnum í liðunum og ekki eru þeir færri hjá heimamönnum sem hafa komið mjög mörgum á óvart með frábærri frammistöðu.

Þegar Nat-vélin, spin doktorinn, Dabbi Kóngur og einn besti Bandaríkjamaður deildarinnar eru saman í liði er alltaf von á flottum tilþrifum eins og sést í þessu myndbandi sem má finna hér fyrir neðan.

Hvort Þórsliðinu takist að verða átjánda félagið sem kemst í bikarúrslit karla verður að koma í ljós en leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni textalýsingu hér inn á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×