Innlent

Hollenska konan óttast um líf sitt: Segir hræðilegt að sitja í íslensku fangelsi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Mirjam dvelur nú í fangelsinu á Akureyri og samþykkti að veita fréttastofu viðtal.
Mirjam dvelur nú í fangelsinu á Akureyri og samþykkti að veita fréttastofu viðtal.
Hin hollenska Mirjam Foekje van Twuijer hlaut í síðustu viku einn þyngsta dóm í fíkniefnamáli í gjörvallri réttarsögu Íslands. Hún hlaut ellefu ára fangelsisdóm fyrir smygl á tæplega tuttugu kílóum af fíkniefnum til landsins. Þyngsti mögulegi dómur fyrir slíkt brot er 12 ár.

Mirjam dvelur nú í fangelsinu á Akureyri og samþykkti að veita fréttastofu viðtal. Hún segir hræðilegt að sitja í íslensku fangelsi. Brot úr viðtalinu verður sýnt í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30 í kvöld.

„Ég sakna heimilis míns, barnanna, dýranna minna sem hafa öll verið tekin burt, foreldra minna. Og í raun bara Hollands,“ segir Mirjam. „Ég hefði ekki getað ímyndað mér að ég myndi sakna Hollands svona mikið. Það er mjög gott fólk hérna, um það snýst málið ekki. En maður saknar þess sem maður hafði. Það er þannig.“



Datt ekki í hug að svona gæti farið

Sannað var fyrir héraðsdómi að Mirjam var burðardýr. Þetta var þriðja smyglferð hennar til Íslands. Hún segist hafa verið stórskuldug og að þetta hafi verið hennar leið til að greiða skuldina til baka. „Mér datt ekki í hug að svona gæti farið.“

Mirjam sýndi mikinn samstarfsvilja við rannsókn máls en það varð henni ekki til refsiminnkunar. Hún segist nú óttast um líf sitt.

Viðtal við Mirjam verður sýnt í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30 og í opinni dagskrá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×