Erlent

Hollendingar gramir út í dóttur Pútín

Bjarki Ármannsson skrifar
María ásamt föður sínum í Moskvu árið 2007.
María ásamt föður sínum í Moskvu árið 2007. Nordicphotos/AFP
Meint búseta Maríu Pútín, dóttur Vladímírs Pútín Rússlandsforseta, í Hollandi hefur vakið gremju margra Hollendinga sem kenna Rússum um örlög farþegaþotunnar MH17. Tæplega tvö hundruð þeirra farþega sem létu lífið voru hollenskir en margir kenna aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu, sem hliðhollir eru Rússum, um að hafa skotið vélina niður.

Hin 29 ára María er sögð búa í þorpinu Voorschoten í vestanverðu Hollandi ásamt kærasta sínum. Dagblaðið De Telegraaf birti í vikunni mynd af íbúðarblokkinni þar sem þau eiga að búa með frétt þess efnis að Úkraínumenn búsettir í Hollandi hygðust standa fyrir friðsælum mótmælum þar fyrir framan.

Þá lét Pieter Broertjes, borgarstjóri í Hilversum, þau ummæli falla í útvarpsviðtali á miðvikudag að María ætti að vera send úr landi. Hann baðst síðar afsökunar á þessum ummælum á Twitter-síðu sinni en sagði þau vera sprottin úr „vanmáttartilfinningu sem margir ættu að kannast við.“

Ósköp lítið er vitað um Maríu og Jekaterínu, systur hennar. Þeim hefur alla tíð verið haldið úr sviðsljósinu og engar myndir hafa verið teknar af þeim opinberlega frá því að þær voru börn. María hefur þó oft verið sögð í sambandi við hollenska ríkisborgarann Jorrit Faassen en hann hefur gegn stjórnunarstöðum í rússneskum fyrirtækjum á borð við Gazprom. Hann komst í heimspressuna árið 2010 þegar lífverðir rússneska bankamannsins Matvei Urin áttu að hafa gengið í skrokk á honum í tengslum við umferðarágreining í Moskvu.


Tengdar fréttir

Spjótin beinast nú að Rússlandi

Bandaríkjaforseti segir ábyrgð Rússa mikla á að ekki hafi tekist að koma á friði í Úkraínu. Kallar eftir ákveðnum skrefum í friðarátt og boðar samráð þjóðarleiðtoga um næstu skref. Úkraínumenn segja aðskilnaðarsinna studda af Rússum ábyrga fyrir árásinni.

Hollendingar syrgja hina látnu

Flugvélar með líkum um fimmtíu fórnarlamba árásarinnar á MH17 lenti á flugvellinum í Eindhoven skömmu eftir hádegi í dag.

Þjóðarsorg í Hollandi

Hollendingar eru í áfalli vegna dauða 173 Hollendinga sem fórust þegar MH17 var skotin niður í austurhluta Úkraínu í gær.

Mesta hörmung í flugsögu Hollands

Forsætisráðherra Úkraínu fullyrðir að rússneskir hryðjuverkamenn hafi skotið farþegaþotu Malaysina flugfélagsins niður. Forsætisráðherra Hollands krefst ítarlegra alþjóðlegrar rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×