Erlent

Hollande á von á að Abdeslam verði framseldur fljótlega

Atli Ísleifsson skrifar
Frá fréttamannafundi Charles Michel og Francois Hollande í kvöld.
Frá fréttamannafundi Charles Michel og Francois Hollande í kvöld. Vísir/AFP
Francois Hollande Frakklandsforseti segist eiga von á að grunaði hryðjuverkamaðurinn Saleh Abdeslam verði fljótlega framseldur til Frakklands.

Hinn 26 ára Saleh Abdeslam var handtekinn í Brussel í síðdegis í dag eftir að hafa verið á flótta í rúma fjóra mánuði. Hann var gripinn ásamt fjórum til viðbótar í aðgerðum lögreglu í Molenbeek, úthverfi Brussel.

Sjá einnig:Á flótta undan ISIS og yfirvöldum:Hver er Salah Abdeslam og hvað gerði hann?

Hollande sagði handtökurnar vera mikilvægan áfanga en ítrekaði að hryðjuverkahættan væri enn mikil þegar hann ræddi við fjölmiðla ásamt Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, fyrr í kvöld.

Saksóknari segir að einn hinna handteknu, Monir Ahmed Alaaj, hafi verið á lista lögreglu yfir eftirlýsta menn, en að hinir þrír séu meðlimir fjölskyldu sem hafði skotið skjólshúsi yfir Abdeslam á flótta.

Tveir hinna handteknu urðu fyrir skotum í aðgerðum lögreglu, Abdeslam þeirra á meðal.

Hollande þakkaði samstarfi belgísku og frönsku lögreglunnar það að mögulegt hafi verið að ná Abdeslam á lífi og boðaði að samstarfið yrði aukið. Hann sagði að framundan væru fleiri handtökur og að stríðinu væri hvergi nærri lokið.

Forsetinn sagði á blaðamannafundinum að hugur sinn væri þó hjá þeim 130 sem fórust í hryðjuverkaárásunum í París þann 13. nóvember síðastliðinn.


Tengdar fréttir

Fundu fingraför Abdelsam í Brussel

Salah Abdelsam er talinn hafa tekið þátt í árásunum í París en hann var í íbúð í Brussel sem skotið var á lögregluþjóna úr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×