Sport

Höldum okkur við stefnuna sem var sett í upphafi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bjarni trúir því að leikmenn Fram nái að snúa taflinu við.
Bjarni trúir því að leikmenn Fram nái að snúa taflinu við. Fréttablaðið/Daníel
Hvorugt liðanna sem sitja á botni Pepsi-deildarinnar styrkti sig í leikmannaglugganum og hafa þjálfarar liðanna greinilega fulla trú á að leikmenn liðanna nái að snúa taflinu við.

Bjarni Guðjónsson, þjálfari Fram, staðfesti að félagið hefði litið á nokkra leikmenn en ákveðið að halda sig við þá leikmenn sem fyrir voru.

„Við fórum aldrei neitt af stað í þessum glugga. Við skoðuðum þetta aðeins í upphafi hvort það væru leikmenn sem myndu styrkja hópinn verulega en það voru ekki margir í boði. Hópurinn er ágætlega stór og við höfum verið að leyfa mönnum að fara frá okkur,“ sagði Bjarni sem vildi ekki kaupa til þess eins að kaupa.

„Ef við ætluðum að styrkja okkar hóp þá þyrfti það að vera einhver raunveruleg styrking. Hefði einhver þungaviktarleikmaður verið á lausu hefði það verið skoðað en það var ekkert slíkt í boði,“ sagði Bjarni sem hefur fulla trú á að Fram nái að snúa við gengi liðsins.

„Við ætlum að halda ró okkar og halda okkur við þá stefnu sem við settum í upphafi tímabilsins. Þótt staðan sé ekki glæsileg þessa stundina hef ég mikla trú á því sem við erum með í höndunum og ég hef fulla trú á þessum strákum. Við þurfum bara að ná því að að láta hlutina smella,“ sagði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×