Innlent

Höggva á hnútinn vegna „mikilvægra almannahagsmuna sem eru í húfi“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ólöf Nordal innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpi vegna kjaradeilu flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpi vegna kjaradeilu flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins. Vísir/Anton/Heiða
Ólöf Nordal innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpi ríkisstjórnarinnar um kjaramál flugumferðarstjóra á Alþingi í dag. Í frumvarpinu segir að ríkir almannahagsmunir séu í húfi fyrir því að stöðva kjaradeiluna.

„Ríkissáttasemjari hefur ekki boðað til nýs samningafundar eftir fund deiluaðila 3. júní sl.

og því rétt að löggjafinn stígi inn í viðræður aðila og höggvi á hnútinn með frumvarpi þessu vegna þeirra mikilvægu almannahagsmuna sem eru í húfi,“ segir í frumvarpinu.

Sjá einnig: Inngrip ríkisstjórnar ekki ákjósanlegt en skiljanlegt.

Með frumvarpinu er lagt til að verkfallsaðgerðir Félags íslenska flugumferðarstjóra verði samstundis óheimilar verði frumvarpið að lögum.

Lagt er til að hafi aðilar ekki undirritað kjarasamning fyrir 24. júní skipi innanríkisráðherra þrjá aðila í gerðardóm sem skal fyrir 18. júlí ákveða kaup og kjör þeirra félagsmanna sem frumvarpið nær til.

Í frumvarpinu segir að sú röskun sem verði vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra geri ríkinu ekki kleyft að að sinna lögbundnum skyldum sínum og þjónustu, einnig séu undir heildarhagsmunar heillrar atvinnugreinar, ferðaþjónustunnar.

Sjá einnig: Kjaradeila flugumferðarstjóra: Fá frest til 24. júní til að semja

Kjaradeilan hafi haft áhrif á um 220 þúsund farþega Icelandair og Wow og hafi hún bæði áhrif rekstur og orðspor íslenskrar ferðaþjónustu sem hvíli fyrst og fremst á því að flugsamgöngur til og frá landinu séu öruggar og áreiðanlegar.

„Ljóst er að vinnudeila aðila hefur skaðleg áhrif á samgöngur til og frá landinu, þjónustu

sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að veita á Norður-Atlantshafi sem og á íslenska

ferðaþjónustu. Einnig hafa aðgerðirnar haft neikvæð áhrif á innanlandsflug með sama hætti

og á millilandaflug,“ segir í frumvarpinu.

Gerðardómur skal við ákvarðanir um laun og önnur starfskjör félagsmanna Félags íslenskra flugumferðarstjóra fyrst og fremst taka mið af launaþróun samkvæmt þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði síðustu misseri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×