Erlent

Höfuðvígi ISIS er nærri því umkringt

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðlimur SDF stendur vörð.
Meðlimur SDF stendur vörð. Vísir/AFP
Syrian Democratic Forces, eða SDF, bandalag Kúrda og Araba gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi, hefur náð tökum á síðasta þjóðveginum að borginni Raqqa, höfuðvígi ISIS. Öllum birgðaleiðum á landi hefur verið lokað en ISIS á undir högg að sækja á þremur víglínum í Sýrlandi og einnig í Mosul í Írak.

Enn er hægt að flytja birgðir til borgarinnar yfir Efratánna til suðurs.

„Þetta er stór sigur, en það er enn mikið sem þarf að gera,“ segir meðlimur SDF við Reuters. SDF er stutt með loftárásum og sérsveitum Bandaríkjanna. Brýr við Raqqa hafa verið eyðilagðar í loftárásum.

Vísir/Graphicnews
Stjónarher Bashar al-Assad hefur sótt hratt fram frá Aleppo á síðustu dögum og endurheimt Palmyra úr höndum ISIS-liða, ISIS hefur tapað bænum al-Bab í hendur uppreisnarmanna sem studdir eru af Tyrklandi. Samkvæmt heimildum Reuters, stefnir stjórnarherinn á það að ná að útjaðri Raqqa.

Með sókn sinni hefur stjórnarherinn króað Tyrki og bandamenn þeirra af í norðurhluta landsins. Yfirvöld í Ankara vilja að uppreisnarmennirnir sem þeir styðja við leiði sóknina gegn Raqqa, en SDF hefur nú unnið að því að umkringja borgina frá því í nóvember.

Stuðningur Bandaríkjanna við SDF hefur leitt til deilna á milli Bandaríkjanna og Tyrklands. Sýrlenskir Kúrdar, YPG, mynda stóran hluta SDF og Tyrkir líta á þá sem hryðjuverkamenn.

Heimildarmaður Reuters í stjórnarhernum segir óreiðu ríkja meðal leiðtoga ISIS.

AFP fréttaveitan segir frá því að ISIS-liðar í Raqqa hafa komið á reglum um klæðaburð borgara. Þannig vilji þeir gera vígamönnum sínum auðveldara með að felast meðal borgara og forðast loftárásir.


Tengdar fréttir

„Þeir óttast raddir okkar“

Fjöldi kvenna hafa gengið til liðs við YPG-sveitir Kúrda í Sýrlandi til að hefna fyrir framferði ISIS gagnvart konum.

Kúrdar sækjast eftir loftvarnarvopnum

Yfirvöld í Rússlandi segja ákvörðun Bandaríkjanna að draga úr takmörkunum á vopnaveitingum til ýmissa hópa í Sýrlandi vera beina ógn gegn flugmönnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×