Skoðun

Höfuðstaður Norðurlands

Eiríkur Björn Björgvinsson skrifar

Fyrr í sumar sendi Akureyrarbær inn umsögn sem hluta af vinnuferli innanríkisráðuneytisins vegna breytingar á starfsemi lögreglu- og sýslumannsembætta. Í þeim breytingum sem kynntar voru af hálfu innanríkisráðuneytisins í umræðuskjali þess voru settar fram hugmyndir um að flytja ætti aðalskrifstofur sýslumanns frá Akureyri til Húsavíkur. Í umsögn bæjarins kemur fram að verulega skortir upp á rökstuðning fyrir þessari ákvörðun enda ekki séð að með flutningnum sé unnið að þeim markmiðum sem sett voru í lögin af hálfu Alþingis. Þau markmið snúa að því að bæta þjónustu og rekstur sýslumannsembætta og gera þau í stakk búin til að taka við fleiri stjórnsýsluverkefnum. Akureyrarbær skýrir í umsögn sinni að þessum markmiðum verði best náð með því að hafa aðalskrifstofur hans áfram á Akureyri og flutningur vinni gegn þeim. Að auki er það skiljanlegt að bærinn bregðist við ef fækka á störfum í sveitarfélaginu og einnig kallað sérstaklega af innanríkisráðuneytinu eftir áliti þeirra sem breytingarnar snerta. Raunar má hrósa innanríkisráðuneytinu fyrir þetta umræðuferli sem hefur átt sér stað eftir samþykkt laganna.



Einhverjir hafa svo kosið að blanda rökstuðningi bæjarins við fyrirhugaða uppbyggingu höfustöðva Fiskistofu á Akureyri þó svo að þessi mál tengist engan veginn. Aðalskrifstofur sýslumanns eiga að þjóna íbúum á Norðurlandi, miðstöð stjórnsýslu í héraði og eiga því best heima í höfuðstað Norðurlands. Fiskistofa er aftur á móti ríkisstofnun sem sér um stjórnsýsluverkefni í sjávarútvegsmálum. Eins og við höfum bent á í tilfelli Fiskistofu þá eiga þau verkefni mjög vel heima á Akureyri enda sterk sjávarútvegsfyrirtæki hér í bænum, mikil þekking á greininni til staðar og eini háskólinn á landinu sem kennir og sinnir rannsóknum í sjávarútvegsfræði. Með því að höfuðstöðvar Fiskistofu séu á Akureyri teljum við að stofnunin geti styrkst með það stoðkerfi sem til staðar er.



Þegar horft er til þess hvar opinber stjórnsýsla á að byggjast upp er ekki lengur aðeins eðlilegt að horfa til höfuðborgarsvæðisins. Akureyri og Eyjafjörður eru stærsti þéttbýliskjarni utan þess og af þeim sökum teljum við að meira eigi að gera í því að byggja upp opinbera þjónustu á því svæði. Við teljum veruleg sóknarfæri felast í því.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×