Erlent

Höfuðborgarstjórinn flýr Venesúela

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Antonio Ledezma, borgarstjóri Karakas, sást í Kólumbíu í gær.
Antonio Ledezma, borgarstjóri Karakas, sást í Kólumbíu í gær. Nordicphotos/AFP
Antonio Ledezma, borgarstjóri Karakas, höfuðborgar Venesúela, hefur flúið land. Ledezma er yfirlýstur andstæðingur Nicolas Maduro forseta og hefur verið í stofufangelsi á skrifstofu sinni frá árinu 2014 kjölfar þess að Maduro sakaði hann um að reyna að hrinda af stað áætlun Bandaríkjamanna um valdarán. Þá var hann einnig sakaður um að hvetja til ofbeldis með því að boða til mótmæla.

Ledezma flúði stofufangelsi sitt í gær og komst til Kólumbíu. Yfirvöld þar í landi staðfestu komu Ledezma og bauð Andres Pastrana, fyrrverandi forseti ríkisins, Ledezma velkominn í tísti.

Venesúelski miðillinn El Nac­ional greindi frá því að fjölskylda Ledezma hafi flúið land með honum. Þá hafi öryggissveitir ríkisstjórnarinnar gert áhlaup á heimili hans og skrifstofu í kjölfar flóttans.

Ledezma var handtekinn á ný í ágúst ásamt Leopoldo López en þeir eru tveir þekktustu stjórnarandstæðingar landsins. Hann var þó aftur færður í stofufangelsi eftir stutta vist í Ramo Verde-herfangelsinu.

Tilefni handtökunnar var það að hæstiréttur Venesúela, sem gagnrýnendur segja alfarið á bandi Maduro, sagðist búa yfir upplýsingum um að tvímenningarnir hygðust flýja.

Þær handtökur mættu harðri andstöðu Bandaríkjanna. Sagðist Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vara „einræðisstjórn Maduro“ við því að fara svo illa með „póli­tíska fanga“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×