Viðskipti innlent

Höfnin í Vestmannaeyjum flöskuháls

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa.
Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa. Vísir/GVA
„Með auknu flutningsmagni mun skipakostur áfram fara stækkandi með tilheyrandi lækkun á einingakostnaði. Til þess að svo megi verða er þó orðið brýnt að fjárfesta í innviðum hafna, svo sem í Vestmannaeyjum, en höfnin þar er í dag flöskuháls varðandi frekari stækkun flutningaskipa,“ sagði Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, á ráðstefnu um tækifærin í eflingu flutninga um og við Ísland sem fram fer í hörpu í dag.

Pálmar benti á að flutningaskipum í áætlanasiglingum hefði fækkað verulega á síðustu 20 árum og stærð gámaskipa tvöfaldast með tilheyrandi framleiðniaukningu. Fyrirsjáanlegt væri að flutningsþörfin myndi halda áfram að breytast næstu áratugina.

Styrkja þarf vegtengingar

„Með auknum umsvifum í vöruflutningum er nauðsynlegt að hugað sé að bættum samgöngum að og frá hafnarsvæðum. Í dag er svo komið að vegtengingar við Sundahöfn í Reykjavík bera engan veginn þá umferð sem fylgir starfseminni. Löngu tímabært er að ráða bót á þessu, skapa samstöðu um skipulagsmál á svæðinu og hefjast handa við styrkingu vegtenginga. Sú fjárfesting er að líkindum ein arðbærasta innviðauppbygging sem hægt væri að ráðast í um þessar mundir,“ sagði Pálmar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×