Fótbolti

Höddi Magg um glórulausan dómara í úrslitaleik Copa América: "Takiði flautuna af þessum manni“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lopes var í aðalhlutverki í leiknum í New Jersey í nótt.
Lopes var í aðalhlutverki í leiknum í New Jersey í nótt. vísir/getty
Brasilíski dómarinn Heber Roberto Lopes stal senunni í úrslitaleik Argentínu og Síle í Copa América í nótt.

Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma né framlengingu og því réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni.

Þar skoruðu Sílemenn úr fjórum spyrnum en Argentínumenn aðeins úr tveimur. Lionel Messi skaut yfir úr sinni spyrnu og tilkynnti eftir leikinn að hann væri hættur í landsliðinu.

Messi fann sig ekki í úrslitaleiknum en hann fékk að líta gula spjaldið fyrir leikaraskap á 40. mínútu hjá spjaldaglöðum Lopes. Afar hæpinn dómur.

Brasilíumaðurinn virkaði æstur og í litlu jafnvægi allt frá upphafsflautinu og öll líkamstjáning hans var furðuleg.

Heber Lopes er ekki spar á spjöldin eins og sjá á þessu skilti.mynd/skjáskot af soccerway.com
Lopes lyfti gula spjaldinu alls fimm sinnum í fyrri hálfleik en Sílemaðurinn Marcelo Díaz fékk tvö þeirra fyrir brot á Messi.

Tveimur mínútum fyrir hálfleik sendi Lopes Argentínumanninn Marcos Rojo svo í sturtu fyrir brot á Arturo Vidal. Bæði lið léku því einum færri í seinni hálfleik og framlengingunni.

Þegar litið er yfir síðustu leiki hjá þessum 43 ára gamla Brasilíumanni þarf spjaldagleðin í nótt ekki að koma á óvart en hann hefur lyft rauða spjaldinu 14 sinnum í síðustu 27 leikjum sem hann hefur dæmt.

Hörður Magnússon, sem lýsti leiknum á Stöð 2 Sport í nótt, var steinhissa á frammistöðu Lopes og eftir að hann rak Rojo af velli hrópaði Hörður: „Takiði flautuna af þessum dómara!“

Bæði rauðu spjöldin má sjá hér að neðan, það seinna í lýsingu Hödda Magg.

Díaz fær sitt annað gula spjald Rojo sendur í sturtu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×