Innlent

Hnúfubakar dvelja hér allt árið

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Hnúfubakur. Einhverjir þeirra hafa verið á ferðinni í vetur.
Hnúfubakur. Einhverjir þeirra hafa verið á ferðinni í vetur. mynd/arctic sea tours
„Við höfum séð hnúfubaka alla mánuði ársins,“ segir Freyr Antonsson, framkvæmdastjóri Arctic Sea Tours á Dalvík, sem í fyrsta sinn bauð upp á hvalaskoðun í vetur.

Haustin eru reyndar sérlega hentug til þess arna því hnúfubakar létu sjá sig í öllum ferðum frá 15. október til áramóta.

„Það voru eiginlega fleiri hvalir en farþegar í þessum haustferðum,“ segir hann og hlær við. Hann segir þó að ferðirnar séu ekki mjög margar þegar vetur konungur ríkir.

Þetta sumarið hafa hnúfubakarnir verið mjög aðgengilegir í Eyjafirðinum en þeir sáust í hverri ferð frá 12. maí til 3. júlí en þá fóru brælur að gera skoðunarmönnum erfitt fyrir.

Sífellt fjölgar farþegum því fyrir tveimur árum voru farþegarnir um 3.200 en í fyrra voru þeir helmingi fleiri.

Útlit er fyrir að enn fjölgi þeim og segir Freyr að stefnan sé sett á að ná tíu þúsund markinu í ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×