Körfubolti

Hlynur tryggði Drekunum sigur á toppliðinu með flautukörfu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hlynur Bæringsson var góður í kvöld.
Hlynur Bæringsson var góður í kvöld. vísir/valli
Hlynur Bæringsson var hetja Sundsvall Dragons í kvöld þegar liðið vann Norrköping Dolhpnis, annað af tveimur toppliðum sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta, á útivelli, 84-83.

Sundsvall var stigi undir, 83-82, fyrir síðustu sóknina. Jakob Örn Sigurðarson reyndi þriggja stiga skot þegar sex sekúndur voru eftir en hitti ekki.

Það kom ekki að sök því landsliðsfyrirliðinn Hlynur hirti sóknarfrákastið og skoraði sigurkörfuna um leið og leiktíminn rann út. Lokatölur, 84-83.

Jakob Örn skoraði 16 stig og tók 4 fráköst en Hlynur var með tvennu upp á 14 stig og 11 fráköst auk þess sem hann gaf 6 stoðsendingar.

Ægir Þór Steinarsson skoraði þrjú stig og gaf tvær stoðsendingar en Ragnar Nathanaelsson tók eitt frákast fyrir Drekana sem eru í fimmta sæti deildarinnar.

Haukur Helgi Pálsson var ekki með LF Basket í kvöld sem valtaði yfir Umeå BSKT, 96-46. LF er með 42 stig eins og Sundsvall.

Þetta var ekki gott kvöld fyrir toppliðin því Södertälje Kings, sem er á toppnum ásamt Norrköping, tapaði fyrir Sigurði Gunnari Þorsteinssyni og félögum í Solna Vikings á heimavelli, 89-79.

Sigurður spilaði ríflega 20 mínútur í leiknum, skoraði 10 stig og tók átta fráköst. Hann hitti úr fimm af átta skotum sínum úr teignum. Solna er í sjöunda sæti með 26 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×