Körfubolti

Hlynur sleppur við að glíma við serbneskan risann hjá Spurs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson og Boban Marjanovic.
Hlynur Bæringsson og Boban Marjanovic. Vísir/Getty
Serbneski miðherjinn Boban Marjanovic mun ekki spila með Serbum á Evrópumótinu í körfubolta í næsta mánuði en Serbía er í riðli Íslands á mótinu.

Boban Marjanovic samdi við NBA-liðið San Antonio Spurs í síðasta mánuði en hann er 221 sentimetrar á hæð og yfir 130 kíló á þyngd.

Boban Marjanovic verður 27 ára seinna í þessum mánuði en hann hefur verið atvinnumaður í körfubolta frá því að hann var 18 ára gamall. Nú er Marjanovic að fá sitt fyrsta tækifæri í NBA-deildinni eftir að hafa spilað í Serbíu, Litháen og Rússlandi.

San Antonio Spurs hefur nú bannað Boban Marjanovic að taka þátt í Evrópumótinu af ótta við að hann meiðist. Marjanovic hefur fundið fyrir verkjum í vinstri fæti en samkvæmt serbneska sambandinu kom ekkert fram á myndum.

Þetta eru ágætar fréttir fyrir Hlyn Bæringsson og aðra miðherja íslenska körfuboltalandsliðsins sem mæta Serbum í þriðja leik Íslands á EM í Berlín.  Það er ekkert grín að eiga við hinn öfluga Boban Marjanovic sem treður yfir menn lengst utan úr teig.

Marjanovic var kosinn í úrvaslið Euroleague á síðasta tímabili þegar hann spilaði með Crvena Zvezda og var með 16,6 stig og 10,7 fráköst að meðaltali í leik.

Marjanovic var einnig valinn besti leikmaður serbnesku deildarinnar þriðja árið í röð og hjálpaði Crvena Zvezda að vinna titilinn.

Marjanovic var í unglingalandsliði Serba sem varð Heimsmeistari 2007 og Evrópumeistari árið eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×