Körfubolti

Hlynur: Þurfum að vita hvenær við eigum að halda kjafti

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Hlynur átti flottan leik í kvöld.
Hlynur átti flottan leik í kvöld. vísir/stefán
„Ég veit ekki hvað það var í fyrri, við byrjuðum loksins að spila almennilega undir lokin. Okkur var eiginlega misboðið eftir þennan ömurlega fyrri hálfleik,“ sagði Hlynur Bæringsson, miðherji Stjörnunnar, hreinskilinn að leikslokum í kvöld.

„Sem betur fer erum við með góða leikmenn í liðinu sem héldu okkur inn í leiknum í fyrri hálfleik. Við vorum hræðilegir bæði varnarlega og sóknarlega í fyrri hálfleik þótt að við höfum verið að hitta vel.“

Sjá einnig:Umfjöllun: Stjarnan - Þór Þorl. 86-78 | Stjörnumenn komnir á toppinn

Hlynur var ekkert að skafa af því er hann rifjaði upp fyrri hálfleikinn.

„Með allri virðingu fyrir Þórsurum þá þótt að þeir séu með hæfileikaríka einstaklinga þá leyfðum við þeim að labba framhjá okkur og hirða fráköst. Ég tók því persónulega hversu illa við lékum í fyrri hálfleik. Sem betur fer erum við með nægilega góðar skyttur sem geta dregið skot út úr rassgatinu á sér og það hélt okkur inni í leiknum. Þeir áttu í raun skilið að vera yfir í hálfleik.“

Það var mun meiri ákefð í Garðbæingum í upphafi seinni hálfleiks en ákefðin var full mikil að mati dómaranna.

„Við vorum mjög pirraðir út í okkur sjálfa í hálfleik, sama þótt að staðan væri jöfn þá vorum við bara slakir. Við tókum kannski orðin um að berja á þeim full alvarlega í upphafi seinni hálfleiks og byrjuðum að safna allskonar villum og þetta fór út í algjöra vitleysu,“ sagði Hlynur og bætti við:

„Bæði við og dómararnir áttum að takast betur á við þetta. Við tökum auðvitað skömmina, menn verða að vita hvenær þeir eiga að halda kjafti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×