Innlent

Hlutföllin að þokast í rétta átt

Sveinn Arnarsson skrifar
Í Reykjavík eru nærri tveir af hverjum þremur borgarfulltrúum konur.
Í Reykjavík eru nærri tveir af hverjum þremur borgarfulltrúum konur. Vísir/ernir
Fleiri konur en nokkru sinni fyrr náðu kjöri til sveitarstjórna í kosningum helgarinnar. Konur eru nú um 47 prósent sveitarstjórnarmanna en voru um 44 prósent fyrir fjórum árum.

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, er að vonum ánægð ef hlutfall kynjanna er að jafnast enn frekar í sveitarstjórnum landsins.

„Samkvæmt fyrstu skoðun virðist vera að draga saman með kynjunum en það er afar jákvætt að heildarhlutfallið er að jafnast. Þetta er því að þokast í rétta átt,“ segir Katrín Björg. „Hins vegar munum við fara ítarlega ofan í þessar tölur og skoða hvernig þetta lítur út í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Kynjaskiptingin er auðvitað mismunandi eftir sveitarfélögunum.“

Katrín segir jafna stöðu kynjanna innan sveitarfélaga auðvitað æskilega. „Þó við séum auðvitað ánægð með þetta munum við einnig skoða stöðu sveitarstjóra vítt og breitt um landið. Þar er heilmikið sem þarf að horfa til en einn af hverjum fjórum sveitarstjórum á síðasta kjörtímabili var kona. Það verður að segjast að það hlutfall er ekki eins ákjósanlegt og hlutfall kvenna inni í sveitarstjórnunum sjálfum,“ bætir Katrín Björg við.




Tengdar fréttir

Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum aldrei hærra

Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum er hærra en nokkru sinni fyrr að loknum sveitarstjórnakosningunum í gær. Þegar horft er til stærstu sveitarfélaganna er hlutfall kvenna hæst í Fjallabyggð en lægst í Mosfellsbæ og i Ölfusi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×