Innlent

Hlutfall kvenna í stjórn lítið breyst

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
mynd/hagstofan
Konur voru í lok árs 2014 25,5 prósent stjórnarmanna fyrirtækja sem greiða laun og eru skráð í hlutafélagaskrá, sem er hækkun upp á 0,4 prósentustig frá fyrra ári. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja var á bilinu 21,3 prósent til 22,3 prósent á árunum 1999 til 2006, en hefur farið hækkandi frá árinu 2007. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Konum hefur fjölgað í stjórnum stærri fyrirtækja undanfarin ár. Árið 2014 voru konur þriðjungur stjórnarmanna í fyrirtækjum með fimmtíu starfsmenn eða fleiri, til samanburðar við 12,7 prósent árið 2007.

Árið 2010 voru samþykkt lög um að hlutfall hvors kyns skyldi vera að minnsta kosti 40 prósent í stjórnum fyrirtækja með fleiri en fimmtíu starfsmenn en þau tóku gildi í september 2013.

Hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja með færri en fimmtíu starfsmenn hefur lítið breyst á síðustu árum, en þau eru tæp 98 prósent af fjölda fyrirtækja sem greiða laun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×