Lífið

Hlupu í Borgarnes og ætla að halda áfram fram á nótt

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá tvo Spartverja hlaupa.
Hér má sjá tvo Spartverja hlaupa.
„Hér er frábær stemning," segir Jóhann Emil Elíasson hjá heilsuræktarstöðinni Spörtu. Þeir sem æfa og þjálfa í Spörtu eru um þessar mundir á harðahlaupum yfir landið og ætla sér að hlaupa á Blönduós, en lagt var af stað frá Spörtu við Nýbýlaveg í morgun.

„Við erum komin upp í tæplega 340 þúsund krónur og tökum áfram við framlögum, alveg fram á þriðjudag," segir Jóhann. Fyrirkomulagið er þannig að Spartverjar skiptast á að hlaupa og keyrir rúta á eftir hópnum. Alls er vegalengdin 224 kílómetrar.

Þegar Vísir heyrði í Jóhanni var hópurinn staddur fyrir utan Borgarnes. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Við erum einum og hálfum klukkutíma á undan áætlum, sem er bara gott mál. Við áætlum að vera á Blönduósi í fyrramálið, klukkan 8, ef allt gengur að óskum."

Jóhann segir þetta átak, sem er til styrktar Umhyggju, vera samstillt átak einstaklinga og fyrirtækja. „Við erum rosalega þakklát fyrir þá styrki sem við höfum fengið."

Hægt er að fylgjast með hópnum hlaupa í gegnum Facebook-síðu Spörtu, í gegnum Snapchat-reikning Spörtu (Þá þarf að bæta Spartakopavogi við sem vini í forritinu) eða í gegnum Twitter, þar sem umræðan er merkt #Spartablö2015

Þeir sem vilja heita á Spartverja geta lagt inn á 307-13-110194, kt.680510-1720.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×