Innlent

Hljóp frá hótelreikningum í Reykjavík með mikið magn barnakláms í fórum sínum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
vísir/getty
Erlendur ríkisborgari var úrskurðaður í Hæstarétti í dag í einangrun meðan á rannsókn máls hans stendur yfir. Maðurinn er sakaður um að hafa hafa greitt fyrir flugmiða hingað til lands og fjöldan allan af vörum með illa fengnu kreditkortanúmeri,  sem og fyrir vörslu og dreifingu á barnaklámi.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur er mál hans rakið. Þar segir að upphaf rannsóknar lögreglu á máli mannsins megi rekja til ábendingar sem lögreglunni barst frá flugfélagi einu um að kærði væri á leið til landsins og að farmiði hans hefði verið greiddur með illa fengnu greiðslukortanúmeri. Farmiðinn hafi verið bókaður í gegnum vef félagsins og nam greiðslan alls 722.178 krónum fyrir flug  til Íslands þann 16. júní síðastliðinn og frá landinu aftur daginn eftir.

Sá kærði var handtekinn við komuna hingað til lands og úrskurðaður í gæsluvarðhald á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Hann játaði við yfirheyrslur að hafa keypt farmiðann með illa fengnu greiðslukortanúmeri og er rannsókn þess máls lokið.

Þúsundir barnaklámsgagna og hlaupið frá reikningum

Við meðferð málsins hjá lögreglu fór fram rannsókn á þeim tölvubúnaði sem maðurinn hafði meðferðis og fundust þar fjöldi flugbókana á vegum kærða og greiðslukortanúmer sem tilheyrðu öðrum aðilum.

Þá fannst einnig umtalsvert magn skráa sem geyma myndir og myndbönd af börnum, mestmegnis ungum drengjum, í kynferðislegum athöfnum.

Lögreglan telur manninn því undir „rökstuddum grun” um að hafa haft í vörslum sínum og til dreifingar þúsundir myndbanda og mynda sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt í skrám á hörðum diskum og tölvuskýjum (Dropbox). Lögreglan hefur farið yfir 6 aðganga mannsins af þeim 27 sem talið er að hann hafi umráð yfir og hafa um 8000 skrár sem innihalda barnaklám komið í ljós fram til þessa.

Lögreglan telur að mun meira magn af slíku efni sé að finna á þeim 21 aðgöngum sem eftir standa.

Við rannsókn málsins fundust einnig gögn sem bentu til þess að að maðurinn hafi dreift slíku efni til ótilgreindra aðila í spjallhópum á veraldarvefnum sem kynferðislegar kenndir hafa til barna.

Þá er lögreglan einnig með til rannsóknar önnur meint fjársvika mál mannsins en honum er gefið að sök að hafa keypt og pantað vörur og þjónustu með stolnum kreditkortaupplýsingum.

Um er að ræða fjölda tilvika þar sem pöntun var gerð á veraldarvefnum fyrir vörum, einkum dýrum tölvubúnaði og þjónustu, til að mynda dýrum dagsferðum í ferðaþjónustu. Loks eru til rannsóknar nokkur tilvik þar sem kærði er grunaður um fjársvik, með því að hafa stungið af frá ógreiddum reikningum hjá hótelum í Reykjavík.

Við rannsókn málsins lagði lögreglan hald á fartölvu, tvo Iphone farsíma og Ipad spjaldtölvu sem maðurinn var með undir höndum við handtökuna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×