Lífið

Hleypur heilt maraþon í jakkafötum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Pétur Ívarsson hleypur heilt maraþon í jakkafötum í næsta mánuði.
Pétur Ívarsson hleypur heilt maraþon í jakkafötum í næsta mánuði. mynd/eva ólafsdóttir
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég hleyp heilt maraþon í jakkafötum og þetta er örugglega í fyrsta sinn sem maður hleypur heilt maraþon í jakkafötum á Íslandi,“ segir Pétur Ívarsson, verslunarstjóri Boss-búðarinnar í Kringlunni og hlaupari.

Hann ætlar að hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu í jakkafötum til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna. „Ég hljóp hálft maraþon í fyrra en maður getur ekki sagt sama brandarann tvisvar og fer ég því helmingi lengra í ár,“ segir Pétur léttur í lund.

Hann er þó alvanur hlaupari, hefur hlaupið sjö heil maraþon áður og þykir vegalengdin ekkert mál, hraðinn sé eina málið.

„Ég ætla að stilla upp þremur gínum í búðinni og leyfa fólki að kjósa um í hvaða jakkafötum ég á að hlaupa. Ég verð samt í Brooks-hlaupaskóm því ég vil ekki stúta á mér fótunum,“ segir Pétur. Fyrir utan hlaupaskóna verður hann klæddur í jakkaföt og skyrtu með bindi og klút.

Þá má segja að maraþonið sé hálfgert gæðapróf fyrir jakkafötin í búðinni. „Já, þau rifnuðu ekki í fyrra þó svo að það hafi rignt og auðvitað eru fötin viðkvæmari þegar þau eru blaut. Ég hef engar áhyggjur af að þau rifni, þó svo að ég viti að þau verði þröng því ég mun hlaupa í fötum sem eru í nýjustu tísku og aðsniðin jakkaföt eru í tísku,“ útskýrir Pétur.

Hann ætlar að styrkja Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna enn frekar, því búðin mun bæta við tíu prósentum af safnaðri upphæð, ásamt því að posi frá Styrktarfélaginu verður í búðinni og fólk getur styrkt félagið beint.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×