Innlent

Hleypur hálft maraþon í sjóstakki

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Kjartan mun vera kappkæddur í Reykjavíkurmaraþoninu.
Kjartan mun vera kappkæddur í Reykjavíkurmaraþoninu. Mynd/Kjartan
Kjartan Þór Kjartansson ætlar að hlaupa hálft maraþon í sjóstakk til styrktar samtökunum Einstök börn í Reykjavíkurmaraþoninu þann 23. ágúst.

Kjartan er sjómaður sem slasaðist illa á hendi í janúar, þegar hún varð undir þungri keðju. Hann segist vera mikið fyrir að standast erfiðar áskoranir og hafi - áður en hann slasaðist - verið búinn að stofna sérstaka vefsíðu þar sem fólk gat skorað á hann. „En eftir að ég slasaðist þurfti ég að hætta við. Ég fékk svokallaða grandarakeðju ofan á höndina, ætli það hafi ekki verið fimm tonn á keðjunni. Höndin fór mjög illa, allar sinar og taugar skemmdust. Ég er enn að jafna mig og það eina sem ég get eiginlega gert er að hlaupa," segir hann og bætir við að fólk hafi verið búið að skora á hann að klífa fjöll og fleira, á vefsíðu hans.

„Ég get ekki beitt mér eins mikið og ég vildi. En ég get hlaupið og það er æðislegt að geta hlaupið og látið gott af sér leiða."

Hann segist vilja styrkja samtökin Einstök börn, því þarf farið fram gott starf. „Já, börnin sem eru skjólstæðingar samstakanna eiga allt gott skilið. Ég vil styðja við þau og fjölskyldur þeirra."

En hvernig er að eiginlega að hlaupa í sjóstakki?

„Heitt," svarar Kjartan og hlær. Hann heldur áfram:

„Ég er búinn að vera að hlaupa í hettupeysum til þess að venja mig á hitann sem kemur þegar maður hleypur í sjótstakk. Ég missi yfirleitt svona fjögur til sex kíló þegar ég hleyp svona kappklæddur. Sjóstakkurinn andar náttúrulega ekki neitt og ég þarf að vera í hlaupagallanum undir, svo ég meiði mig ekki þegar sjóstakkurinn nuddast upp við mig. Ég reikna með því að missa svona tíu kíló af vökva í þessu hlaupi."

Kjartan hljóp tíu kílómetra í sjóstakk í fyrra og ætlar nú að tvöfalda vegalendina og gott betur. Hann heldur úti styrktarsíðu og hvetur fólk til að heita á sig og styðja þannig Einstök börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×