Lífið

Hlaut titilinn Rödd ársins

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Marta Kristín mun fara með hlutverk Pamínu í Töfraflautunni eftir Mozart.
Marta Kristín mun fara með hlutverk Pamínu í Töfraflautunni eftir Mozart. Vísir/Anton Brink
Mér fannst æðislegt að komast svona langt. Það kom mér á óvart,“ segir Marta Kristín Friðriksdóttir sem sigraði í opnum flokki söngkeppninnar Vox Domini nýlega og var valin rödd ársins 2017.

Að launum fær hún að halda tónleika í Kaldalóni í Hörpu.

Hún kveðst ung hafa byrjað að syngja. „Ég var í Stúlknakór Reykjavíkur frá því ég var sex, sjö ára hjá henni Margréti Pálmadóttur og byrjaði einsöngsnám í söngskólanum hennar, Dómus Vox.“

Marta Kristín tók 8. stig í Söngskóla Reykjavíkur vorið 2016 eftir fjögurra ára nám hjá Signýju Sæmundsdóttur og undirbýr sig nú undir inntökupróf í Vínarháskóla.

„Ég fer út 18. febrúar, prófið byrjar 20. og stendur í fjóra daga. Mamma ætlar með mér að veita mér andlegan stuðning,“ lýsir hún. 



Fyrir utan inntökuprófið í Vín og tónleikana í Kaldalóni fer Marta Kristín með hlutverk Pamínu, dóttur næturdrottningarinnar í nemendaóperunni Töfraflautunni sem Söngskólinn er að setja upp og verður flutt 12. febrúar í fullri lengd.

Hún viðurkennir að nóg sé að gera. „Það eru endalausar æfingar alla daga,“ segir hún glaðlega.

Þess má geta að tveir aðrir keppendur í Vox Domini, þeir Ari Ólafsson sem var í 1. sæti á framhaldsstigi og Gunnar Björn Jónsson sem var í 2. sæti í opnum flokki, fá einnig að halda tónleika. Það verða dúetttónleikar í Hafnarborg með Antoniu Hevesi píanóleikara.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. febrúar 2017






Fleiri fréttir

Sjá meira


×