Erlent

Hlaut 40 ára fangelsisdóm fyrir að skipuleggja sprengjuárásir

Bjarki Ármannsson skrifar
Hinn 29 ára Abid Nasír er meðal annars talinn hafa skipulagt árásir í New York og Kaupmannahöfn.
Hinn 29 ára Abid Nasír er meðal annars talinn hafa skipulagt árásir í New York og Kaupmannahöfn.
Pakistanskur karlmaður hlaut í dag fjörutíu ára fangelsisdóm í Bandaríkjunum fyrir að skipuleggja sprengjuárásir í nokkrum löndum. Bandarísk yfirvöld segja að áform hans hafi verið skipulögð af leiðtogum al-Kaída samtakanna. 

Hinn 29 ára Abid Nasír var handtekinn í Bretlandi árið 2009 ásamt ellefu öðrum en þeir voru grunaðir um að skipuleggja sprengjuárás á verslunarmiðstöð í Manchester. Hann var aftur handtekinn árið 2010 og framseldur til Bandaríkjanna þremur árum síðar að beiðni bandarískra yfirvalda.

Saksóknarar þar í landi töldu Nasír eiga þátt í skipulagningu árása al-Kaída á nokkur skotmörk á Vesturlöndum, meðal annars neðanjarðarlestakerfi New York-borgar og skrifstofur dagblaðs í Kaupmannahöfn.

Nasír hélt uppi eigin málsvörn í réttarhöldunum yfir sér en ráðgjafar hans segjast ætla að áfrýja dómnum. Þeir telji dóminn of þungan en einnig að það hefði átt að rétta yfir Nasír í Bretlandi. Það hafi ekki verið sanngjarnt að láta hann koma fram fyrir kviðdómi í New York-borg, þar sem hryðjuverkaárásirnar þann 11. september árið 2001 séu mörgum þar enn í fersku minni.

Saksóknarar í málinu eru aftur á móti hæstánægðir með dóminn og segjast vona að hann sendi þau skilaboð að hryðjuverkamönnum verði refsað af fullum þunga.​



Fleiri fréttir

Sjá meira


×