Sport

Hlaupaprinsessan varð að hafna flottu boði frá Tyrklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arna Stefanía Guðmundsdóttir.
Arna Stefanía Guðmundsdóttir. Vísir/Hanna
Arna Stefanía Guðmundsdóttir er að gera góða hluti á þessu innanhússtímabili og á dögunum tryggði hún sig inn á EM í Belgrad með frábæru hlaupi á Reykjavíkurleikunum.

Arna Stefanía fylgdi þessu síðan eftir um helgina með því að vinna 400 metra hlaupið á Nordenkampen (NM innanhúss) í Tampere í Finnlandi.

Arna Stefanía hljóp á 53,92 sekúndum á RIG, sem var nýtt Íslandsmet í flokki 20 til 22 ára og þá kom hún í mark á 54,21 sekúndum á Norðurlandamótinu sem er hennar annar besti árangur í 400 metra hlaupi innanhúss.  Arna Stefanía hafði best hlaupið á 54,40 sekúndum fyrir þetta tímabil og er því búin að bæta sig mikið.

Árangur Örnu Stefaníu er farinn að vekja athygli víða, þannig fékk hún fyrir nokkrum dögum boð um að taka þátt í sterku alþjóðlegu móti í Istanbul í Tyrklandi. Frjálsíþróttasambandið segir frá þessu og kallar Örnu Stefaníu „Hlaupaprinsessuna úr FH“.

Boðið sýndi að Arna Stefanía er komin í nýjan klassa þar sem boðið hljóðaði ekki aðeins upp á flug og uppihald heldur einnig ágætis umbun fyrir árangur.

Arna Stefanía gat því miður ekki þegið boðið, en hún er nú að jafna sig eftir erfitt hlaup í Tampere og að keppast við að komast í gott stand fyrir EM í Belgrad.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×