Innlent

Hlaupaóða Ísland: Þátttaka í Reykjavíkurmaraþoninu líklega heimsmet

Ingvar Haraldsson skrifar
Frá Laugardalshöllinni í dag.
Frá Laugardalshöllinni í dag. Vísir/Andri
Í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka höfðu 14125 skráð sig til leiks í síðdegis í dag. Hægt var að skrá sig til klukkan sjö í kvöld. Einnig verður hægt að skrá sig í þriggja kílómetra hlaupið og Latabæjarhlaupið á morgun og stefnir því í met skráningu.

Torfi H. Leifsson, umsjónarmaður Hlaup.is segir vel hægt að fullyrða að um einhverskonar heimsmet sé að ræða miðað en um fjögur prósent af íslensku þjóðinni eru skráð til leiks. „Í stærstu hlaupunum út í heimi eru milli þrjátíu og sjötíu þúsund manns sem keppa,“ segir Torfi en bendir á að það séu mun fjölmennari lönd. Því er þátttaka í Reykjavíkurmaraþonið eftir því sem næst verður komist heimsmet miðað við höfðatölu.

Torfi segir ástæðuna fyrir þessum mikla fjölda vera vitundarvakningu: „Það er búið að vera líkamsræktarbylgja undanfarin tvö, þrjú, fjögur ár . Þetta hefur verið stigvaxandi. Fólk er að hugsa meira um heilsuna og það hefur séð að hlaup eru einföld og góð leið til að tryggja þá hreyfingu sem þarf. Þetta er einfalt og þægilegt sport.“  

Keppendur þurfa að sjóða pastað sjálfir

Mikill mannfjöldi kom saman í Laugardalshöll í dag en hægt var að sækja keppnisgögn til klukkan sjö. Í gær komu um fjögur þúsund manns að sækja keppnisgögn og því var von á um tíu þúsund manns í dag. Þung umferð var svæðinu og erfitt var að komast að höllinni. Þegar inn í höllina var komið blöstu langar raðir af hlaupurum að bíða eftir keppnisgögnum. Snorri Már Snorrason flutti einnig fyrirlestur þar sem hann hvatti fólk til að hreyfa sig en Snorri hefur barist við Parkinson undanfarinn áratug.

Undanfarin ár hafa skipuleggjendur blásið til pastaveislu í Laugardalshöllinni. Það var hinsvegar ekki gert í ár. Þess í stað fengu keppendur boðið upp á ósoðið spagettí, hrökkbrauð og mjólkurdrykki. Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurmaraþonsins, segir að ekki hafi um sparnaðaraðgerð að ræða. „Það var of mikið flækjustig að gera það fyrir þennan fjölda á þessum stað. Skipulagslega séð gekk þetta ekki upp,“ segir Anna Lilja.

Hér að neðan má sjá myndir úr Laugardalshöllinni í dag.

Vísir/Andri
Vísir/Andri
Vísir/Andri



Fleiri fréttir

Sjá meira


×