Innlent

Hjúkrunarfræðingur og rafiðnfræðingur til Nepal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ellen Stefanía Björnsdóttir, bráðahjúkrunarfræðingur, og Alexandar Knežević, rafiðnfræðingur.
Ellen Stefanía Björnsdóttir, bráðahjúkrunarfræðingur, og Alexandar Knežević, rafiðnfræðingur.
Þau Ellen Stefanía Björnsdóttir, bráðahjúkrunarfræðingur, og Alexandar Knežević, rafiðnfræðingur, eru á leið til Nepal til mannúðarstarfa á vegum Rauða krossins á Íslandi. Þau Ellen og Alexander koma til með að starfa við tjaldsjúkrahús norska Rauða krossins í Chautara í norðurhluta Nepal. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum.

Ellen Stefanía hefur mikla reynslu í bráðahjúkrun eftir áratuga starf við bráðadeild Landspítalans í Fossvogi en hún hefur einnig starfað á spítölum í Noregi. Ellen lauk ERU-námskeiði (Emergency Response Unit) árið 2012 og hefur síðan þá verið á útkallslista Rauða krossins, Veraldarvaktinni. Þetta er fyrsta sendiferð Ellenar fyrir Rauða krossinn en hún lagði af stað til Nepal þann 16. júlí og hóf störf fyrir viku síðan.

Alexandar mun starfa að tæknimálum við tjaldsjúkrahúsið en við þau starfar nú þegar annar fulltrúi Rauða krossins á Íslandi, Ríkarður Már Pétursson. Alexandar starfar er starfsmaður Orkuveitunnar en hann hefur mikla reynslu sem sendifulltrúi Rauða krossins. Hann starfaði í Filippseyjum árið 2014 á vegum Rauða krossins á Íslandi í kjölfar fellbylsins Haiyan og þá hefur hann einnig farið í fjölda sendiferða fyrir þýska, sem og austurríska Rauða krossinn.

Þau Ellen og Alexandar koma til með að starfa í Nepal þangað til í byrjun september en nú hafa alls sjö sendifulltrúar starfað þar í landi á vegum Rauða krossins á Íslandi.

Neyðin er enn mikil í Nepal eftir að tveir risaskjálftar skóku landið á vormánuðum í ár. Um helgina voru liðnir nákvæmlega þrír mánuðir frá þeim fyrri, sem var 7,9 að stærð og reið yfir þann 25. apríl. Rúmlega 9000 manns létust vegna skjálftanna tveggja og um 22 þúsund slösuðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×