Innlent

Hjúkrunarfræðingar vilja nýjan Landspítala í forgang

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
„Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga lýsir yfir þungum áhyggjum af núverandi stöðu á Landspítala vegna ófullnægjandi húsakosts og álags á starfsfólk.“ Þetta kemur fram í ályktun stjórnarinnar sem send var á Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.

Í ályktuninni segir að ljóst sé að húsnæði Landspítala sé úr sér gengið og ekki hentugt fyrir þá starfssemi sem hátæknisjúkrahús þurfi til afnota.

„Bæta þarf verulega aðstöðu skjólstæðinga og starfsmanna spítalans og mun ný bygging skila miklum ábata fyrir þjóðina ásamt því að draga úr álagi á starfsfólk með bættum vinnuaðstæðum.“

Því skorar stjórnin á stjórnvöld að setja byggingu nýs Landspítala í forgang og tryggja nægjanlegt fjármagn til verkefnisins, „þjóðinni allri til heilla.“

Vanda þarf til undirbúnings

Stjórnin sendi einnig frá aðra ályktun þar sem stjórnvöld eru hvött til að vanda vel til undirbúnings viðbragða við mögulega móttöku sjúklinga með ebólu.

„Ebóla er alvarlegur sjúkdómur sem dregur stóran hluta þeirra sem af henni smitast til dauða. Heilbrigðisstarfsmenn, einkum hjúkrunarfræðingar, munu standa í framvarðasveit þegar kemur að meðhöndlun ebólusjúklinga.“

Þá segir að nýja athuganir á Spáni sýni að af 108 innlitum á stofu ebólusjúklinga hafi 102 þeirra verið sinnt af hjúkrunarfræðingum. Því séu þeir í talsverðri hættu á mögulegu smiti, séu aðstæður og búnaður ekki fullnægjandi hvað varði smitgát og varnir.

„Hjúkrunarfræðingar hafa þekkingu og færni til að sinna ebólusjúklingum líkt og öðrum sjúklingum. Hins vegar krefst svo flókin hjúkrunarmeðferð sérstakrar þjálfunar þar sem vanda verður til verka. Þjálfun sem þessi er afar kostnaðarsöm og krefst mikils mannafla og tækjabúnaðar.“

Því hvetur stjórnin stjórnvöld til að tryggja Landspítala ásamt öðrum heilbrigðisstofnunum fjármagn til þjálfunar heilbrigðisstarfsmanna, kaupa á nauðsynlegum búnaði og fullnægjandi sjúkdóma- og líftryggingu.

„Öryggi heilbrigðisstarfsmanna verður ávallt að vera forgangsatriði í allri þjónustu og skapa þeim aðstæður til að sinna starfi sínu á fullnægjandi hátt. Til þess þarf fjármagn, tíma til þjálfunar og samstillt átak heilbrigðisstarfsmanna, heilbrigðisstofnana og stjórnvalda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×