Innlent

Hjúkrunarfræðingar segja nýtt greiðsluþátttökukerfi óraunhæft

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Fréttablaðið/Vilhelm
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggst gegn því að frumvarp um nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga verði samþykkt óbreytt. Guðbjörg Pálsdóttir, starfandi formaður félagsins segir hámarkskostnað í kerfinu óraunhæfan og fer fram á að hann verði lækkaður verulega. Hún segir að með frumvarpinu sé ekki mörkuð heildstæð stefna og tannlækningar og sálfræðiþjónustu vanti inn í nýja kerfið.

„Það er ekki tannlæknaþjónusta, sálfræðiþjónusta og aðrir þættir sem fólk er að borga fyrir í dag í heilbrigðiskostnaðinn í heild sinni. Þannig að þetta 95 þúsund króna hámark er í rauninni óraunhæft og er bara hluti af myndinni,“ segir Guðbjörg.

„Okkur finnst þessi upphæð of há og við teljum að með því að gera heilbrigðisþjónustuna gjaldfrjálsa með öllu þá mun það ekki kosta ríkissjóð verulega upphæð í rauninni á ári. Það mætti byrja á að gera heilbrigðisþjónustu barna og öryrkja gjaldfrjálsa og skoða hvort það komi í veg hvort þessir hópar þurfi að neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.“

Frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra um nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga kveður á um að mánaðargreiðslur fólks fari aldrei yfir tiltekið hámark. Þannig verði hann aldrei meiri en 95 þúsund krónur á ári, en í kringum 65 þúsund krónur á ári hjá eldri borgurum og öryrkjum. Þá á heilsugæslan að vera í vaxandi mæli fyrsti viðkomustaður sjúklinga.

Guðbjörg segist fagna því að unnið sé að því að heilsugæslan verði almennt fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Slík breyting geti þó skapað hættu fyrir sjúklinga er fjármagn verði ekki aukið til heilsugæslunnar, sem ráði vart við stöðuna eins og hún sé í dag.

„Það verður til dæmis dýrara fyrir sjúklinga að leita sér sérfræðilækna án tilvísunar því þeir þurfa fyrst að fara í gegnum heilsugæsluna. En eins og ég held að allir viti í dag að þá ræður heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ekki við í dag að veita þá þjónustu sem hún þegar á að veita vegna skorts á fjármagni og starfsfólki og eins í rauninni er ekki búið að taka ákvörðun um hver á að sinna hverju starfi innan heilsugæslunnar. Þannig að áður en við förum að taka svona skref þá í rauninni þarf að setja inn fjármagn til heilsugæslunnar,“ segir hún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×