Innlent

Hjúkrunarfræðingar fagna ályktun Sjálfstæðisflokksins

Kjaradeilur hjúkrunarfræðinga hafa verið fyrirferðamiklar á árinu. Hér má sjá félagsmenn FÍH við þögul mótmæli á Austurvelli í júní.
Kjaradeilur hjúkrunarfræðinga hafa verið fyrirferðamiklar á árinu. Hér má sjá félagsmenn FÍH við þögul mótmæli á Austurvelli í júní. Vísir/Stefán
„Sjálfstæðisflokkurinn vill markvissar aðgerðir til að stytta biðlista fyrir nauðsynlegar aðgerðir í heilbrigðiskerfinu. Stefnt skal að því að bið sé ekki lengri en 3 mánuðir frá tilvísun læknis. Þá verði sérfræðimenntun hjúkrunarfræðinga viðurkennd til að sinna fyrsta stigs þjónustu og þar með stytta biðtíma eftir læknisþjónustu.“

Svo hljóðar ályktun sem samþykkt var á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þessari ályktun fagnar Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga í frétt á vef sínum í dag.

Þar útskýrir félagið í hvað ályktuninni felst. Flokkurinn vilji með þessu viðurkenna ákveðna viðbótarmenntun hjúkrunafræðinga sem tíðkast víða erlendis en hefur enn ekki verið innleidd hér á landi. Með þessa menntun á bakinu hafi hjúkrunarfræðingar meðal annars leyfi til að taka ákvarðanir um meðferð, greina sjúkdóma og ávísa ákveðnum lyfjum. Þeir starfa bæði á heilsugæslustöðvum og á spítölum í nánu samstarfi með læknum.

Erlendis séu þess konar hjúkrunarfræðingar kallaðir „nurse practicioners,“ en samkvæmt Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga á enn eftir að finna góða þýðingu á hugtakinu.

„Rannsóknir sýna að þjónusta veitt af  nurse practicioners hefur skilað betri þjónustu fyrir sjúklinga, fækkað innlögnum og endurinnlögunum, aukinni samfellu í þjónustu og mikilli hagræðingu varðandi kostnað í heilbrigðisþjónustu,“ segir félagið í frétt sinni og bætir við að þess konar hjúkrunarfræðingum fjölgi víða hratt; til að mynda í Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð, Noregi,  Bretlandi og Hollandi.

„Fáist þessi menntun viðurkennd hér á landi má því búast við bættri þjónustu og hagræðingu í rekstri. Auk þess opnar þetta enn frekari möguleika á starfsþróun fyrir hjúkrunarfræðinga, skapar spennandi atvinnutækifæri, eykur fjölbreytni og aðsókn í grunn- og framhaldsnám í hjúkrun,“ segir í frétt félagsins enn fremur sem lýkur á orðunum:

„Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnar ályktuninni og er að hefja fyrstu skref í kortlagningu á hlutverki, menntun og framtíðarmöguleikum Nurse Practicioner á Íslandi”

Þessi ályktun, líkt og svo margar aðrar sem samþykktar voru á fundinum, voru úr ranni ungra sjálfstæðismanna sem voru fyrirferðamiklir um helgina. 


Tengdar fréttir

Ungt fólk eins og flóðbylgja á fundinn

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins var óvenju átakalítill. Meirihluti Evrópusambandssinna hefur yfirgefið flokkinn. Flokkurinn er klofinn á milli ungra frjálslyndra og eldri íhaldssamra félaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×