Innlent

Hjúkrunarfræðingar fá flýtimeðferð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Yfirgnæfandi hluti hjúkrunarfræðinga greiddi atkvæði gegn nýjum kjarasamningi á dögunum.
Yfirgnæfandi hluti hjúkrunarfræðinga greiddi atkvæði gegn nýjum kjarasamningi á dögunum. Vísir/Vilhelm
Hæstiréttur hefur fellt úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnað hafði kröfu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um flýtimeðferð í máli sem félagið hefst höfða á hendur ráðherrum fyrir hönd íslenska ríkisins. Dómurinn var kveðinn upp í dag og birtur á vef Hæstaréttar.

Í úrskurði héraðsdóms sagði að dómkröfur félagsins væru nákvæmlega þær sömu og í máli Bandalags háskólamanna (BHM) gegn íslenska ríkinu. Atvik væru þau sömu sem og helstu málsástæður. Því væri ekki séð að brýn þörf væri á skjótri úrlausn, þ.e. flýtimeðferð málsins.

Hæstiréttur var þessu hins vegar ekki sammála og telur einmitt þörf á skjótri úrlausn málsins enda varði það stórfellda hagsmuni Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og félagsmanna. Ekki hafi þýðingu þótt kveðinn hafi verið upp héraðsdómur í máli BHM gegn ríkinu sem BHM tapaði og áfrýjaði til Hæstaréttar.

Var því úrskurður í héraði felldur úr gildi og lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur að gefa út stefnu til flýtimeðferðar hjúkrunarfræðinga gegn ríkinu.

Dóm Hæstaréttar má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×