Enski boltinn

Hjörvar ánægður með stutt markvarðanámskeið Gumma Ben

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans í Swansea töpuðu enn einum leiknum á tímabilinu þegar liðið lá í valnum gegn Arsenal, 3-2.

Guðmundur Benediktsson var allt annað en hrifinn af Lukasz Fabianski, markverði Swansea, í leiknum en honum fannst Pólverjinn eiga að gera betur í fyrstu tveimur mörkunum.

„Þetta fannst mér alveg sérstaklega lélegt. Mér fannst hann svo aulalegur í þessu marki,“ sagði Hjörvar Hafliðason þegar Gummi benti á hversu smeykur Fabianski var að stökkva út í boltann og á manninn í fyrsta markinu.

„Ég vill bara sjá hann éta þetta,“ sagði Guðmundur. „Stökktu bara á manninn. Það væri aldrei dæmt á hann þarna ef hann stekkur bara á þetta,“ bætti Guðmundur við en hann var líka ósáttur við mark númer tvö. „Mér finnst hann alltof lengi þarna. Hann hefði getað verið kominn í rassgatið á Walcott.“

Guðmundur sýndi svo hvernig enski markvörðurinn Ben Foster bar sig að í umferðinni og fannst að Fabianski ætti að gera eins.  Hjörvar Hafliðason, fyrrverandi markvörður HK, Vals og Breiðabliks, var mjög sáttur með þetta stutta markvarðanámskeið Guðmundar og sagði að nafni hans Guðmundur Hreiðarsson væri stoltur af pælingunni.

Allt innslagið úr Messunni má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×