Innlent

Hjörleifur rannsakar sögustaði á Héraði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur og fyrrum ráðherra rannsakar þessa dagana forna sögustaði á Fljótsdalshéraði, þar á meðal þingstaðinn dulúðuga, Þingmúla í Skriðdal. Múlasýslur eru taldar draga nafn sitt af staðnum en lítið er vitað um þinghaldið né þingstaðinn. 


Þingmúli lá vel við gagnvart reiðleiðum af fjörðunum og helstu höfuðbólum Austurlands. Hjörleifur vill afla meiri vitneskju um hið forna Múlaþing. Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 sagði hann að þetta hafi verið vorþing, væntanlega háð í tengslum við allsherjarþingið á Þingvöllum.


Við Goðastein. Frá vinstri eru Einar Hjörleifsson, Guðný Zoëga og Ásta Sigríður Sigurðardóttir.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Með Hjörleifi eru systurnar Guðný og Bryndís Zoëga, önnur fornleifafræðingur, hin landfræðingur, en saman freista þau þess að draga upp sem skýrasta mynd af þeim tóftum sem taldar eru tengjast þinghaldinu.

 
Heimafólk á Þingmúla segir kenningar um hvar þingið var háð. Ásta Sigríður Sigurðardóttir, bóndi á Þingmúla, bendir á Goðastein, þar sem menn telja að þingstaðurinn hafi verið, ásamt dómhring. 
 
Rannsóknina gerir Hjörleifur í tengslum við ritun árbókar Ferðafélagsins sem koma á út eftir þrjú ár, um Upphérað og öræfin þar suður af. Danski fornleifafræðingurinn Daniel Bruun kannaði tóftirnar hér lauslega fyrir meira en öld en Hjörleifur vonast til að fá fyllri mynd. Nánar í meðfylgjandi frétt Stöðvar 2.
 
Verkefnið er unnið vegna fyrirhugaðrar árbókar Ferðafélags Íslands, sem verður sú áttunda sem Hjörleifur ritar.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×