Erlent

Hjólreiðakeppni hætt vegna veðurs

Jón Hákon Halldórsson skrifar
 Hjólreiðakeppni sem átti að fara fram í Cape Town í Suður-Afríku í gær var frestað vegna mikils storms sem þar geisaði. Þetta var í fyrsta sinn í sögunni sem þessari keppni er aflýst en 35 þúsund hjólreiðarmenn höfðu tilkynnt þátttöku. Vindurinn var svo sterkur að hjólreiðarmenn fuku hreinlega af hjólum sínum.

Skipuleggjendur keppninnar sögðu á blaðamannafundi sem var haldinn á Southern Sun Cullinan hótelinu, þar sem margir erlendir hjólreiðarmenn gistu, að ákvörðunin hefði verið tekin til þess að vernda líf og heilsu þátttakenda.

„Við vorum að sjá fram á ansi margar áskoranir, ekki síst þá að vindhraðinn er talsvert meiri en spáð hafði verið í gær,“ sagði David Bellairs, framkvæmdastjóri markaðs- og kynningarmála keppninnar, á blaðmannafundinum.

Á vefsíðu suðurafríska fréttamiðilsins Times Live segir að einnig hafi eldur í bænum Hout Bay og mótmæli aukið á hættuna og orðið til þess að ákvörðun um að aflýsa keppninni var tekin.

Times Live segir að þátttakendur hafi tekið ákvörðun um að hætta keppninni af skilningi. Sumir þeirra muni reyna aftur að ári. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×