Innlent

Hjólhýsi fauk á bíl

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Guðmarsson tók þessa mynd í Ólafsvík.
Sigurður Ingi Guðmarsson tók þessa mynd í Ólafsvík.
Björgunarsveitir hafa haft í nægu að snúast í óveðrinu í dag. Kolvitlaust veður er á Holtavörðuheiði en þar er búið að loka fyrir umferð. Björgunarsveitir frá Varmalandi, Hvammstanga og Búðardal sinna lokunum á veginum á heiðinni við Bröttubrekku og Staðarskála að beiðni vegagerðarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.

Björgunarsveitin Suðurnes var kölluð út á öðrum tímanum eftir að tilkynning barst um að þak væri að fjúka af húsi í bænum í heilu lagi. Ástandið reyndist þó ekki alvarlegt þegar björgunarmenn komu á staðinn, en þakkantur var laus á húsinu. Þá hafa þrjár aðrar aðrar beiðnir borist um aðstoð en í öllum tilvikum var um að ræða minniháttar foktjón á þökum.

Björgunarsveitin Lífsbjörg var jafnframt kölluð út um svipað leiti til að festa þakplötur sem voru að losna af verslunarhúsnæði í bænum.

Nokkrar tilkynningar um fok bárust frá höfuðborgarsvæðinu. Ekki er vitað af neinu stórtjóni að svo stöddu en hjólhýsi fauk á kyrrstæðan bíl við Hæðargarð. Svo virðist þó sem versta veðrið sé að ganga niður á höfuðborgarsvæðinu en vindhraði fer nú minnkandi eftir að hafa náð 25 metrum á sekúndu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×