Fótbolti

Hjartnæmt bréf Ronaldinho: Farðu þína eigin leið og vertu frjáls

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ronaldinho var oftar en ekki brosandi inni á vellinum, enda segir hann sjálfur að fótboltinn eigi að vera skemmtilegur.
Ronaldinho var oftar en ekki brosandi inni á vellinum, enda segir hann sjálfur að fótboltinn eigi að vera skemmtilegur. Vísir/Getty
„Elsku átta ára Ronaldinho.“ Þannig hefst bréf sem knattspyrnumaðurinn Ronaldinho skrifaði til sín og birti á heimasíðu The Players Tribune í gær.

Í bréfinu gerir hann upp sinn magnaða knattspyrnuferil og lítur til baka yfir stórviðburði í hans lífi. Það hefst með upprifjun á deginum þegar faðir hans lést. Ronaldinho var átta ára gamall.

Faðir hans fékk hjartaáfall og lést á heimili fjölskyldunnar. Ronaldinho segir að hann hafi verið sá sem hvatti hann til að vera skapandi með fótboltann inni á vellinum og að spila frjálslega. „Hann hafði meiri trú á þér en nokkur annar,“ skrifaði Ronaldinho.

Bróðir Ronaldinho, Roberto, gekk honum í föðurstað en hann var þá átján ára og byrjaður að spila með Gremio, knattspyrnufélaginu í heimabænum Porto Alegre.

„Þú ert heppinn því þú hefur Roberto. Þó svo að hann sé tíu árum eldri þá er hann byrjaður að spila fyrir Gremo. Roberto verður ávallt til staðar fyrir þig. Hann verður ekki bara bróðir, heldur eins og faðir fyrir þig. Og umfram allt, verður hann hetjan þín.“

Óhætt er að segja að lesningin sé mögnuð. Ronaldinho rifjar upp þegar Brasilía varð heimsmeistari á HM 1994 í Bandaríkjunum og hvaða áhrif það hafði á hann.

Ronaldoinho segir einnig frá því þegar hann var valinn í U-17 lið Brasilíu og síðar A-landslið Brasilíu. Þegar hann fór til Evrópu, samdi við PSG í Frakklandi og síðar Barcelona þar sem hann kom auga á Lionel Messi, ungan leikmann sem lék sér með boltann inni á vellinum líkt og hann hafði sjálfur gert.

„Eina ráðið sem ég gef þér er þetta: Gerðu þetta á þinn eigin hátt. Vertu frjáls. Heyrðu í tónlistinni. Það er eina leiðin fyrir þig að lifa lífinu.“

Lestu bréfið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×