Fótbolti

Hjartnæm stund þegar Messi hitti loksins plastpokapollann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vinir í raun.
Vinir í raun.
Afganski pollinn Murtaza Ahmadi upplifði drauminn í dag þegar hann hitti goðið sitt Lionel Messi í Doha þar sem argentínska fótboltaundrið er staddur ásamt Barcelona til að spila vináttuleik gegn Al Ahli.

Murtaza litli kveikti í internetinu þegar mynd af honum í argentínskri landsliðstreyju gerðri úr plastpoka fór eins og eldur í sinu um netheima. Það endaði með því að Messi sendi honum Barcelona-treyju.

Þetta gerðist í janúar og nú loks hittust þeir í Doha í Katar. Murtaza var að sjálfsögðu mættur í treyjunni sem Messi sendi honum en Börsungurinn tók vel á móti þeim stutta, lyfti honum upp og faðmaði og sat fyrir á myndum.

„Þetta er myndin sem heimurinn vildi sjá. Sex ára drengurinn sem vildi hitta hetjuna sína upplifði drauminn,“ skrifaði undirbúningsnefnd HM 2022 á Twitter-síðu sína en það var hún sem flaug Murtaza til Doha til að hitta Messi.

Þetta ætti að gleðja Murtaza litla sem hefur átt erfitt ár. Hann þurfti að flýja heimili sitt í Jaghori-hverfinu í Afganistan í maí og þá hótuðu Talíbanar honum lífláti fyrr á árinu.

Hér að neðan má sjá myndir og myndband frá þessum krúttlega hittingi.


Tengdar fréttir

Messi mun hitta krakkann í plastpokabúningnum

Fimm ára drengur frá Afganistan varð heimsfrægur á einum degi þegar mynd af honum í plastpokabúningi merktum Lionel Messi fór sem eldur í sinu um internetið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×