Erlent

Hjálpargögn send til Nepal

Samúel Karl Ólason skrifar
Nú þegar hefur UNICEF sent 120 tonn af lífsnauðsynlegum hjálpargögnum með flugi til Kathmandu.
Nú þegar hefur UNICEF sent 120 tonn af lífsnauðsynlegum hjálpargögnum með flugi til Kathmandu. Vísir/AFP
Skortur er á vatni, mat, rafmagni og hætt er við sjúkdómum í Nepal. Talsmaður yfirvalda þar í landi hefur beðið alþjóðasamfélagið um að koma þeim til hjálpar og nágrannar landsins hafa þegar sent björgunarsveitir, heilbrigðisstarfsmenn og ýmsar birgðir á svæðið.

Í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi segir að starfsfólk þeirra vinni nú dag og nótt að því að útvega börnum og fjölskyldum þeirra nauðsynleg neyðargögn. Nú þegar hefur UNICEF sent 120 tonn af lífsnauðsynlegum hjálpargögnum með flugi til Kathmandu, þar á meðal vatnshreinsitöflur, lyf, hreinlætisgögn, næringarsölt og teppi.

Hins vegar hafa fréttir borist af því að ekki sé hægt að lenda á flugvellinum í Kathmandu vegna anna og plássleysis og að flugvél með hjálpargögn frá Indlandi hafi þurft að snúa við. Á vef BBC segir að það hafi hægt á hjálparstarfinu.

Starfsmenn UNICEF í Nepal hafa útvegað segldúk og efni í skýli fyrir fjölskyldur sem hafast nú við undir beru lofti víða á skjálftasvæðinu. Einnig hefur verið dreift tjöldum til að nota sem neyðarskýli  á sjúkrahúsum fyrir stóran hóp slasaðra.

Í tilkynningunni frá UNICEF segir að minnst 940 þúsund börn muni þurfa á brýnni aðstoð að halda. Á næstu vikum og mánuðum hefur UNICEF einsett sér að koma lífsnauðsynlegri aðstoð til 2,8 milljón barna á skjálftasvæðunum.

UNICEF á Íslandi biðlar til almennings að vera til staðar fyrir börn sem nú eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans. Hægt er að styrkja neyðarsöfnun UNICEF fyrir Nepal með þvi að senda SMSið UNICEF í númerið 1900 og gefa 1500 krónur til neyðaraðgerða vegna jarðskjálftans eða leggja inná söfnunarreikning 701-26-102040 kt: 481203-2950.


Tengdar fréttir

Börn Margrétar sváfu undir berum himni

Margrét Ingadóttir sem rekur heimili fyrir tólf munaðarlaus börn í Katmandú í Nepal hefur miklar áhyggjur af líðan og öryggi þeirra. Í nótt sváfu þau flest undir berum himni skammt frá heimilinu og veðurspáin var afleit, þrumuveður og rigning.

Þrír úr hópi Ingólfs fórust

Ingólfur Axelsson segir frá því á samskiptamiðlinum Facebook að hann sé kominn í grunnbúðir Everest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×