Erlent

Hjálpargögn berast loks umsetnum bæ í Sýrlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Sameinuðu þjóðirnar áætla að um hálf milljón manns séu nú fastir í bæjum og borgum sem setið er um.
Sameinuðu þjóðirnar áætla að um hálf milljón manns séu nú fastir í bæjum og borgum sem setið er um. Vísir/AFP
Fyrstu sendingar hjálpargagna hafa nú borist sýrlenska bænum Muadhamiya sem uppreisnarmenn ráða yfir og Sýrlandsher hefur setið um síðustu mánuði.

Neyðarástand hefur ríkt í bænum að undanförnu þar sem öllum leiðum inn í borgina hefur verið lokað og hafa íbúar verið án matar og annarra nauðsynja.

BBC greinir frá því að 35 vörubílum með hjálpargögnum hafi veirð ekið inn í bæinn sem er nærri sýrlensku höfuðborginni Damaskus. Talsmaður Sýrlandsdeildar Rauða hálfmánans staðfestir þetta í samtali við BBC.

Einnig er verið að flytja matvæli og önnur hjálpargögn til bæjanna Madaya og Zabadani, auk þorpanna Foah og Kefraya í norðurhluta landsins. Sendingarnar eru liður í samkomulagi sem náðist fyrir helgi.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að um hálf milljón manns séu nú fastir í borgum og bæjum sem setið er um. Búist er við að hjálpargögn berist bæjunum Kafr Batna og Deir al-Zour síðar í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×