Tónlist

Hituðu óvænt upp fyrir Damien Rice

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Damien var stórhrifinn af kórnum knáa en hér er Jón kórstjóri búinn að næla heiðursorðuna á hann.
Damien var stórhrifinn af kórnum knáa en hér er Jón kórstjóri búinn að næla heiðursorðuna á hann. Mynd/Arnar Ingi
Bartónar, karlakór Kaffibarsins, komu óvænt fram með írska tónlistarmanninum Damien Rice sem hélt tvenna tónleika hér á landi á dögunum, eða á stóra sviði Þjóðleikhússins 19. maí og í Gamla bíói 25. maí.

„Hann fékk okkur til að koma óvænt fram með sér og syngja í Þjóðleikhúsinu í lokalögunum og við laumuðum okkur þá á sviðið og það tókst þrusuvel,“ segir Jón Svavar Jósefsson, söngvari og kórstjóri Bartóna.

Damien var svo ánægður með kórinn að hann bað þá félaga um að hita upp fyrir sig á seinni tónleikunum í Gamla bíói.

„Við hituðum upp fyrir kappann á seinni tónleikunum. Við sungum gamlar íslenskar drykkjuvísur og ættjarðarljóð með tilheyrandi sprelli,“ segir Jón Svavar léttur í lundu. Hann segir útlendingana hafa tekið vel undir drykkjuvísurnar þrátt fyrir að þær væru á íslensku. 

„Við höfum oft flutt þessar íslensku vísur fyrir útlendinga. Ég á það til að útskýra hvert umfjöllunarefnið er á ensku en ég er nú samt ekkert sérstaklega góður í ensku og þess vegna getur þetta oft endað ruglingslega, sem er oft fyndið,“ bætir Jón Svavar við og hlær.

Reffilegur karlakórinn samankominn.
Írski tónlistarmaðurinn var svo sæmdur heiðursorðu Bartóna að tónleikum loknum. „Aðeins heiðursmeðlimir fá slíkt.“ 

Damien Rice hefur reglulega dvalið á Íslandi á undanförnum árum og þekkti til kórsins eftir kynni sín við Kaffibarinn. „Hann hefur verið gestur á Kaffibarnum þegar hann er hér á landinu, þannig fann hann okkur. Við unnum fyrst með honum á útgáfutónleikunum í Sundlauginni á síðasta ári. Þá var kórinn partur af áhorfendum en í lokalaginu stóðum við upp og sungum með.“

Kórinn og Rice eru miklir kumpánar og vill Jón Svavar stefna á frekara samstarf. „Okkar björtustu vonir eru að fá að fara út og taka lagið með honum en við sjáum hvað setur,“ bætir Jón Svavar við.

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem áhorfandi tók í sal þegar Damien var sæmdur heiðursorðunni í Gamla bíói. Í kjölfarið flytur hann lokalagið Trusty and True með kórnum.

Áhorfendur voru greinilega hæstánægðir með tónleikana og notuðu samfélagsmiðlana óspart til að lýsa yfir hrifningu sinni.

Reykjavik soundcheck -jt

A photo posted by official instagram (@damienrice) on

Trusty and True -jt

A photo posted by official instagram (@damienrice) on






Fleiri fréttir

Sjá meira


×