Lífið

Hitchcock hefði hrifist

Malneirophrenia
Malneirophrenia
Hljómsveitin Malneirophrenia spilar í Mengi í kvöld og eru það fyrstu tónleikar sveitarinnar í tvö ár. Malneirophrenia er kammerpönktríó skipað píanói, sellói og rafbassa. Sveitin hefur leikið með hléum í áratug, haldið nokkra kvikmyndatónleika, og gaf út frumburðinn M árið 2011.

Tónlistin er frjálsleg blanda af nýrri og gamalli klassík, kvikmyndatónlist, rokki, óhljóðum og melódramatík. „Alfred Hitchcock hefði orðið hrifinn,“ ritaði Morgunblaðið árið 2011, og franska þungarokkssíðan Guts of Darkness kallaði músíkina „undursamlega martraðarkennda“.

Í kvöld mun Malneirophrenia frumflytja nýtt efni ásamt því að leika brot úr verkum eftir Franz Schubert og David Shire. Að því loknu mun sveitin leika efni af plötunni M undir völdum atriðum úr kvikmyndinni Voyage to the Planet of Prehistoric Women frá 1967.

Hverjum seldum tónleikamiða fylgir rafrænt niðurhal af fyrstu tveimur hlutum endurhljóðblöndunarverkefnisins, M-Theory #1, með verkum frá raftónlistarmönnunum Futuregrapher, Lord Pusswhip, Buss 4 Trikk og Sigtryggi Berg Sigmarssyni.

Tónleikarnir hefjast kl 21.00 og aðgangur er 2.000 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×