Erlent

Hitabylgja á Norðurlöndum

Atli Ísleifsson skrifar
Hitinn fór víða yfir 30 gráður í Svíþjóð í gær og náði tæplega 35 stiga hita í Noregi.
Hitinn fór víða yfir 30 gráður í Svíþjóð í gær og náði tæplega 35 stiga hita í Noregi. Vísir/AFP
Hitabylgja gengur nú yfir Svíþjóð, Danmörk, Finnland og Noreg þar sem hitastigið fór víða yfir 30 gráður en dagurinn var sá heitasti á árinu til þessa.

Veðurfræðingur hjá sænsku Veðurstofunni í viðtali við Aftonbladet segir heitt loft nú ganga yfir Svíþjóð úr suðri og austri. Hitabylgjan stafar af heitu lofti sem kemur frá Rússlandi og hefur leitað til Svíþjóðar um Finnland og Eystrasalt.

Í Svíþjóð mældist mesti hitinn aðeins yfir 31 gráðu í norðurhluta landsins og lítur út fyrir að að ekki kólni mikið næstu daga.

Í Noregi hafa hitamet verið slegin, til að mynda þegar hitinn náði 34,4 gráðum í Ulvik í Hörðalandi.

Í Björgvin hafa starfsmenn sædýragarðs borgarinnar talsverðar áhyggjur af líðan mörgæsa garðsins og gera nú allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að þær fái hitaslag.

Hefur köldu hafsvatni verið dælt úr 120 metra dýpi og í mörgæsatjörnina. „Það er mikið viðvörunarmerki ef þær lúta höfði og goggurinn beinist niður,“ segir líffræðingur í viðtali við Bergenske Tidene.

Þar segir jafnframt að starfsmenn garðsins syrgi enn Ping, japanskrar mörgæsar sem drapst í garðinum í hitabylgju fyrir fjórtán árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×