Viðskipti erlent

Hinn samansaumaði Jeff Bezos varð ríkasti maður nútímasögunnar í dag

Birgir Olgeirsson skrifar
Jeff Bezos, stofnandi Amazon.
Jeff Bezos, stofnandi Amazon. Vísir/Getty
Jeff Bezos, stofnandi Amazon og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, varð í dag ríkasta manneskja nútímasögunnar.

Greint var frá þessu á vef Bloomberg sem reiknar vísitölu sem dregur 400 ríkustu einstaklinga heimsins saman á lista sem kallaður er Bloomberg Billionaires Index.

Samkvæmt útreikningum Bloomberg voru auðæfi Bezos metin á 150 milljarða Bandaríkjadala í morgun, eða því sem nemur um tæplega sextán billjónum íslenskra króna, eða tæplega 16 þúsund milljörðum íslenskra króna.

Bloomberg reiknar verðbólgu inn í þetta mat og bendir til dæmis á að 100 milljarðar Bandaríkjadala sem Bill Gates, stofnandi Microsoft, átti árið 1999 væru um 149 milljarðar Bandaríkjadala í dag.

Bill Gates stofnandi Microsoft.Vísir/Getty
Eftir því sem leið á daginn lækkaði upphæð Bezos niður í 145 milljarða en bent er á að Bezos og Gates hafi skipst á fyrsta sætinu frá júlí í fyrra, en gengi fyrirtækja þeirra hefur mikið um það að segja.

Í dag er Bezos hins vegar talsvert fyrir ofan Gates sem er metinn á 95 milljarða Bandaríkjadala. Bent er á að Gates deili auðæfum sínum en Bezos hafi ekki verið eins gjafmildur.

Er Gates sagður hafa gefið svo mikið frá sér að auðæfi hans væru jafn mikil og Bezos í dag hefði hann haldið þeim eftir.

Gates hefur gefið til góðgerðamála frá tíunda áratug síðustu aldar og stofnaði Bill and Melinda Gates sjóðinn sem hefur það að markmiði að bæta heilbrigðisþjónustu og draga úr sárafátækt.

Bezos hefur hins vegar það orðspor á sér að vera fremur nískur og koma ekki nógu vel fram við starfsfólk sitt.

Fjöldi frásagna er af óánægju starfsfólks Amazon. Fyrirtækið á útgáfufélag bandaríska dagblaðsins Washington Post en starfsfólk blaðsins mótmælti slæmu kjörum fyrir skömmu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×