Skoðun

Hinn pólítíski ómöguleiki

Lýður Árnason skrifar
Ótrúlegar vendingar hafa fyrirgengist í íslenskum stjórnmálum frá hruni. Vinstri stjórnin flaggaði frelsiskyndli og virtist staðráðin í að lyfta þjóðinni upp úr sérhagsmunapólitík áranna á undan. Í þessu andrúmslofti var þjóðinni falið það verkefni að setja samfélaginu nýjan ramma með nýrri stjórnarskrá. En í stað þess að fylgja framtakinu kröftuglega úr hlaði ákvað ríkisstjórnin að hefja aðildarviðræður við ESB án þess að spyrja þjóðina. Þessi andlýðræðislega ákvörðun ónýtti allt kjörtímabilið enda rann þingmeirihlutinn á rassinn og megnaði hvorki að klára aðildarviðræðurnar né að staðfesta nýja stjórnarskrá samkvæmt þjóðarvilja.

Hrunflokkarnir tóku við og lofuðu kjósendum þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald ESB-viðræðna. Nú eru efndir þessara kosningaloforða kallaðar pólitískur ómöguleiki. Var þessu fólki ekki ljóst þegar loforðin voru gefin að hugsanlega þyrfti það að vinna gegn sannfæringu sinni? Kviknaði kannski fyrst á perunni eftir kjördag? Eða helgar tilgangurinn meðalið?

Frammistaða Fjórflokksins í ESB-málinu er einkar dapurleg. Fyrri ríkisstjórn hafnaði aðkomu þjóðarinnar og þessi endar í ráðherrasólói. Þjóðin er fórnarlamb þessa yfirgangs, hún hefur aldrei fengið að tjá hug sinn og situr nú uppi með þvingaða niðurstöðu, sundruð og með enn eitt þrætueplið á herðunum.

Sem betur fer virðist vitundarvakning meðal fólks einmitt á þessu. Yngri kynslóðirnar eru þar í fararbroddi og nenna ekki að hlusta á afdankaða atvinnupólitíkusa reyna að sannfæra kjósendur um hluti sem augljóslega ganga ekki upp. Krafan um að uppræta pólitískt þrátefli er þannig að ná fótfestu og sú breiðfylking veit að besta leiðin er að auka aðkomu þjóðarinnar með beinu lýðræði sem felur í sér að tiltekið hlutfall kjósenda geti knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslu. Með slíku ákvæði í stjórnarskrá gæti þjóðin klárað þau mál sem þinginu er fyrirmunað og ríkisstjórnir síður komist upp með að svíkja kjósendur sína.



Að lokum þetta: Á löngum ferli hefur Fjórflokkurinn átt ágæta spretti. En hann er hættur að bera virðingu fyrir uppsprettu valdsins sem liggur hjá þjóðinni. Þræðir hans liggja annað. Fyrir Fjórflokkinn er þjóðarvilji þannig ekki leiðsögn heldur vandamál og gengur þvert á þá þrönghagsmunapólitík sem hann rekur. Þetta er sá pólitíski ómöguleiki sem við búum við og hann þarf að kjósa burt.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×