Innlent

Hinn grunaði leiddur fyrir dómara í dag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn sem er í haldi vegna málsins var skipverji á grænlenska togaranum Polar Nanoq.
Maðurinn sem er í haldi vegna málsins var skipverji á grænlenska togaranum Polar Nanoq. vísir/anton brink
Maðurinn sem grunaður er um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana verður leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness síðdegis í dag. Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum sem verið hefur í varðhaldi í tíu vikur.

Maðurinn hefur staðfastlega neitað sök er varðar aðild að dauða Birnu en hefur játað aðild að fíkniefnainnflutning í togaranum Polar Nanoq þar sem fundust um tuttugu kíló af hassi við leit lögreglu og starfsmanna tollsins.

Héraðssaksóknari hefur tvær vikur til stefnu til að gefa út ákæru en tólf vikur er hámarkslengd gæsluvarðhalds án útgáfu ákæru. Rannsókn lögreglu er lokið og er krafan um gæsluvarðhald í dag á grundvelli almannahagsmuna.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sagðist í samtali við Vísi á miðvikudag ekki geta tjáð sig um framgang mála, að öðru leyti en því að embættið hafi byrjað að yfirfara öll gögn um leið og þau bárust, þann 17. mars síðastliðinn. Embættið hafði þó fengið einhver málsgögn fyrir þann tíma. 

Mál Birnu var sent héraðssaksóknara eftir að lífsýnarannsóknum lauk en lífsýnin voru send til Svíþjóðar til greiningar. Niðurstöður rannsóknanna styðja grun lögreglunnar um að maðurinn sem situr í haldi, skipverji af togaranum Polar Nanoq, hafi ráðið Birnu Brjánsdóttur bana.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×