Erlent

Hinn „tékkneski Trump“ sigurvegari þingkosninganna þar í landi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Andrej Babis er ótvíræður sigurvegari þingkosninganna í Tékklandi
Andrej Babis er ótvíræður sigurvegari þingkosninganna í Tékklandi Vísir/Getty
Milljarðamæringurinn Andrej Babis og flokkur hans er sigurvegari þingkosninganna í Tékklandi sem haldnar voru um helgina. Honum hefur verið líkt við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Flokkur Babis, sem lagði áherslu á baráttu gegn spillingu og andstöðu við Evrópusambandið vann risasigur, hlaut 29,7 prósent atkvæða og 78 þingsæti af 200.

Athygli vekur að Píratar unnu einnig kosningasigur í þingkosningunum með 10,8 prósent atkvæða og 22 þingsæti. Píratar hafa ekki áður setið á þingi í Tékklandi.

Talið er líklegt að erfitt muni reynast að mynda stjórn í Tékklandi eftir kosningarnar, alls munu níu flokkar taka sæti á þingi. Hafa flestir þeirra tekið fálega í samstarf með Babis.

Í frétt AFP segir að rekja megi kosningasigur Babis til þess að Tékkar telji sig hlunnfarna miðað við nágrannalönd þeirra í Evrópu. Margir Tékkar þurfi að sætta sig við lág laun og langan vinnutíma. Því hafi þeir leitað til flokka sem spilað hafi inn á andstöðu við ESB.

Babis er sagður vera popúlisti í ætt við Donald Trump, en líkt og forseti Bandaríkjanna er Babis milljarðamæringur. Hefur hann hagnast vel á matvælaframleiðslu, efnaframleiðslu og fjölmiðlum.

Babis er fjármálaráðherra í núverandi samsteypustjórn flokks hans, Kristilegra demókrata og Jafnaðarmanna sem hlutu fimmtán og tíu þingsæti.

Ríkisstjórnin hélt naumlega velli með 103 þingsæti samtals en 101 þingmann þarf til þess að ná meirihluta.

Formaður Jafnaðarmanna hefur þó sagt að ólíklegt sé að stjórnin muni halda áfram, til þess sé meirihlutinn of naumur. Líklegt er því talið að Babis muni freista þess að mynda nýja ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×