Skoðun

Hingað og ekki lengra

Ólafur G. Skúlason skrifar
Ekki er seinna vænna að stjórnvöld komi fram með þær áherslur sem þau hafa í heilbrigðismálum okkar Íslendinga til langframa. Hvað þarf að gerast til að heilbrigðiskerfið verði sett í forgang, það eflt og byggt upp í fyrri gæðaflokk?

Ástandið á Landspítala er vel þekkt og þarf ekki að tíunda það frekar. Heilbrigðisstarfsfólk hefur stigið fram og lýst því yfir að heilbrigðiskerfið sé að þrotum komið og það treysti sér vart til að veita viðunandi þjónustu.

Ég þekki heilbrigðiskerfið vel bæði sem heilbrigðisstarfsmaður og aðstandandi. Ég hef alltaf verið stoltur af því starfi sem þar er unnið og af því góða heilbrigðiskerfi sem við eigum, þrátt fyrir mikið álag, ófullnægjandi húsakost, gömul tæki og nú heilsuspillandi vinnuumhverfi. Það sama hefur átt við um flesta mína kollega.

Starfsfólkið endist ekki mikið lengur

Þannig er nú í pottinn búið að ekki er hægt að ganga lengra í niðurskurði. Hingað og ekki lengra. Nú þarf að snúa vörn í sókn. Byggja þarf upp heilbrigðiskerfi sem veitir bestu þjónustu sem völ er á og er samkeppnishæft um vel menntað og hæft starfsfólk.

Það er sorglegt að lesa á forsíðu Fréttablaðsins að fækka þurfi um 100 starfsmenn á Landspítalanum verði Fjárlög ársins 2015 samþykkt án breytinga. Starfsfólk spítalans getur ekki tekið á sig auknar skyldur en það hefur þegar gert. Við stöðugt álag endist fólk ekki lengi í starfi og hef ég áhyggjur af því að verði álagið enn meira sé alveg eins hægt að skella í lás og beina sjúkum til annarra landa til meðferðar. Heilbrigðisstarfsmenn geta ekki meira.

Ég skora á þingmenn og ríkisstjórn þessarar þjóðar að setja heilbrigðiskerfið í forgang, bæði faglega starfsemi þess og fjárhagslega. Öll munum við þurfa á því að halda einn daginn og þá vill enginn koma að luktum dyrum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×