Erlent

Hin sextán ára Evancho mun syngja við embættistöku Trump

Atli Ísleifsson skrifar
Jackie Evancho kemur frá Pittsburgh og er yngsti bandaríski tónlistarmaðurinn til að ná platínu í plötusölu.
Jackie Evancho kemur frá Pittsburgh og er yngsti bandaríski tónlistarmaðurinn til að ná platínu í plötusölu. Vísir/AFP
Donald Trump vinnur nú að því að fá heimsfræga listamenn til að koma fram við embættistöku hans í bandarísku höfuðborginni Washington í janúar.

Enn hafa engar fréttir borist um að stórstjarna muni troða upp, en staðfest var í gær að hin sextán ára Jackie Evancho komi til með að flytja bandaríska þjóðsönginn á athöfninni.

Evancho sló í gegn í þáttunum America’s Got Talent þegar hún var einungis tíu ára gömul.

„Mér er mikill heiður sýndur að fá að syngja fyrir forsetann. Þetta er mjög merkilegt. Ég hlakka mikið til og ég veit að þetta verður frábært,“ segir Evancho í samtali við ABC.

Þetta verður þó ekki í fyrsta sinn sem Evancho syngur fyrir Bandaríkjaforseta en hún söng fyrir Barack Obama Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu árið 2010 eftir að hún tryggði sér annað sætið í America’s Got Talent.

Evancho kemur frá Pittsburgh og er yngsti bandaríski tónlistarmaðurinn til að ná platínu í plötusölu. Það gerði hún tíu ára gömul.

Orðrómur er uppi um að Kanye West muni einnig koma fram við embættistöku Trump. Þeir félagar funduðu á þriðjudag, en vildu lítið tjá sig um hvað fundurinn snerist að honum loknum.

Beyonce flutti bandaríska þjóðsönginn við seinni embættistöku Obama árið 2013.

Neðar í fréttinni má sjá áheyrnarprufu Evancho í America's Got Talent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×